Tæplega 30 nemendur Rimaskóla tóku þátt í Skákmóti skólans sem haldið var í 25. sinn, eða allt frá stofnun skólans. Þátttakendur voru í hópi þeirra mörgu nemenda sem hafa æft vel í vetur á skólatíma og með skákdeild Fjölnis. Eftir spennandi mót stóð Arnór Gunnlaugsson 7-EH uppi sem sigurvegari og var hann sá eini sem tapaði ekki skák. Með sigrinum hlaut Arnór eignarbikar og farandbikar til varðveislu næsta ár. Á farandbikarinn eru skráðir allir Rimaskólameistarar frá byrjun, oftast Hjörvar Steinn Grétarsson sem vann mótið í 7 skipti. Arnór er vel að sigrinum kominn. Hann hefur æft skák í nokkur ár og á fast sæti í öllum skáksveitum Rimaskóla, bæði á barnaskóla-og grunnskólastigi.
Glæsileg verðlaun voru í boði og fengu 12 keppendur gjafabréf fyrir bíómiðum eða gjafarbréfi á Domino´s. Þeir sem hlutu verðlaun fyrir góðan árangur voru auk skákmeistarans Arnórs þau Joshua, Kjartan Karl, Anton Breki, Kristófer Aron og Ríkharð Skorri 7. bekk, Ingi Alexander 3. bekk, Heiðdís Diljá 3. bekk, sem varð efst stúlkna og Sara Sólveig 5. bekk. Þessir krakkar skipa öll sæti í þeim sterku skáksveitum Rimaskóla sem hafa unnið í vetur til fjölda Íslandsmeistara-og Reykjavíkurmeistaratitla.
Skákstjóri á Skákmóti Rimaskóla 2018 var skákkennari skólans Björn Ívar Karlsson.