Það er hressandi tilbreyting að í Bandaríkjunum sé loks kominn fram á sjónarsviðið einstaklingur sem þar hefur alið allan sinn aldur. Nýbakaður Bandaríkjameistari, hinn 26 ára gamli Samuel Shankland, er uppalinn á vesturströnd Bandaríkjanna, fæddur í Berkeley og vann helstu afrek sín sem ungur maður á skákmótum í Kaliforníu.Eins og flestir vita sem fylgst hafa með gerbreyttist skáklandslagið í Bandaríkjunum á árunum í kringum 1980 og stutt er síðan ólympíulið þeirra var að mestu leyti skipað skákmönnum frá austurblokkinni. Innflytjendurnir setja enn sterkan svip á skáklífið, skákmenn frá Asíu hafa haslað sér völl á opnu mótunum og skemmst er að minnast þess er Filippseyingurinn Wesley So söðlaði um og tefldi fyrir lið Bandaríkjanna á ólympíumótinu í Baku árið 2016.

Stuttu eftir sigurinn á bandaríska meistaramótinu hélt Shankland til Kúbu og tefldi þar á minningarmótinu um Capablanca. Í efsta flokki tefldu sex skákmenn tvöfalda umferð og vann Shankland öruggan sigur, hlaut 7½ vinning af tíu mögulegum. Rússneski stórmeistari Alexei Dreev kom næstur með 6 vinninga.

Manni sýnist að góð leiktækni, ekki síst í endatöflum, einkenni bestu skákir þessarar nýju skákstjörnu Bandaríkjanna. Á því fékk einn besti skákmaður Kúbverja að kenna strax í fyrstu umferð:

Minningarmót um Capablanca 2018; 1. umferð:

Batista Bruzon – Samuel Shankland

Frönsk vörn 1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rd2 c5 4. exd5 Dxd5 5. dxc5 Rf6 6. Rgf3 Dxc5 7. Bd3 Rbd7 8. O-O Dc7 9. He1 Be7 10. Re4 b6 11. Rxf6 Rxf6 12. Re5 O-O 13. Df3

Nú liggur beinast við leika 13. Bb7 en eftir 14. Dg3 gæti hvítur hótað Bh6 eða Rg6 eftir atvikum. Shankland finnur betri leik.

13. … Bd6!

Gefur kost á 14. Dxa8 sem yrði svarað með 14. … Bb7 15. Dxa7 Ha8 og drottningin fellur. Tveir hrókar eru í flestum tilvikum nægur liðsafli fyrir drottninguna en að ýmsu þarf að hyggja; hvítur þarf líka að vera stöðu sína á kóngsvængum eftir 16. Dxa8+ Bxa8 og það gæti reynst þrautin þyngri, t.d. 17. Bf4 Rh5! eða 17. f4 Bxe5! og 18. Rg4 með vinningsstöðu í báðum tilvikum.

14. Dg3 Bb7 15. Bh6 Rh5! 16. Dg5 f5!

Snarplega teflt. Svartur hefur hrifsað til sín frumkvæðið.

17. Dxh5 Bxe5 18. Bc1 Hf6 19. Bf1 Hg6 20. c3 Hd8 21. Bg5 Hd5 22. Had1 b5

Kemur í veg fyrir að hvíti leiki c3-c4.

23. h4 Bh2+ 24. Kh1 Bf4! 25. Kg1 a6 26. a3 Bxg5 27. hxg5 De7 28. Hd4 Hxd4 29. cxd4

Byrjanaþátt skákarinnar hefur Shankland teflt afburðavel. Nú sér hann fram á að 29. Hxg5 er svarað með 30. Hxe6! Hann bíður með g5-peðið en ræðst þess í stað til atlögu við d4-peðið.

29. … Dd8! 30. Dh2 Bd5 31. Hc1

En ekki 31. f4 Be4! 32. Hd1 h6 o.s.frv.

31. … Hxg5 32. De5 h5 33. Hc3 Hg4 34. f3 Hg6 35. Df4 h4 36. Kf2 Df6 37. Hc8 Kh7 38. Hc7 Hh6 39. Ke3 h3!

Eina færa leiðin til að koma umframpeðinu í verð.

40. gxh3 Hh4 41. De5 Dg5+ 42. Kf2 Dd2+ 43. Be2 Dxd4 44. Dxd4 Hxd4 45. Ke3 Hh4 46. Bf1 Kg6 47. b4 f4+ 48. Kf2 Hh8 49. Ha7 Ha8! 50. Hc7

Hvítur þolir ekki uppskipti á hrókum.

50. … Kf6 51. Bd3 g5 52. Be2 Hb8 53. Bd3 Hb6

Hyggst leika Hc6. Framhaldið gæti orðið 54. Ha7 Hc6 55. Be2 Hc2 56. Ke1 Ke5! 57. Hxa6 Kd4 og síðan – Ke3. Bruzon gafst því upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 26. maí 2018

- Auglýsing -