Fimm skákmenn eru efstir og jafnir með fullt hús eftir aðra umferð Íslandsmótsins í skák sem fram fór fyrr í dag í Valsheimilinu. Enn er mikið um óvænt úrslit. Birkir Ísak Jóhannsson (1929) sýndi að sigurinn gegn Jóni Viktori Gunnarssyni (2472) í fyrstu umferð var engin tilviljun þegar hann gerði auðvelt jafntefli gegn Vigni Vatnari Stefánssyni (2284) með svörtu. Jóhann Ingvason (2164) átti þó úrslit dagsins er hann gerði jafntefli við tólffalda Íslandsmeistarann, Hannes Hlífar Stefánsson (2541), fyrrum skákkennara sinn. Haraldur Baldursson (1981) gerði jafntefli við bandaríska alþjóðlega meistarann Justin Sarkar (2297).

Öll úrslit 2. umferðar má finna á Chess-Results.

Þau sem hafa fullt hús eru stórmeistararnir Héðinn Steingrímsson (2583), Bragi Þorfinnsson (2445) og Þröstur Þórhallsson (2416), Lenka Ptácníková (2230), stórmeistari kvenna, og Baldur A. Kristinsson (2219).

Þriðja umferð er rétt nýhafin en hún hófst kl. 16:30. Þá mætast gömlu skákfélagarnir úr Hvassaleitisskóla, Þröstur og Héðinn, Bragi teflir við Lenku og Hannes stýrir hvítu mönnunum gegn Baldri.

Röðun þriðju umferðar má finna á Chess-Results.

Allir skákir umferðirnar eru sýndar beint og má nálgast á vefsíðu mótsins.

Fyrir þá sem eru með snjallsíma og vilja fylgjast með mælir ritstjóri með forritunum Follow chess og Chess24. Best er þó að mæta á skákstað og drekka í sig stemminguna þar. Frítt kaffi á könnunni.

- Auglýsing -