Stefán Bergsson í Paracin. Mynd af Facebook.

Skákmeistari Reykjavíkur, Stefán Bergsson (2192), situr þessa dagana að tafli í Paracin í Serbíu. Hann tók þar fyrst þátt í opnu móti og í framhaldinu tók hann þátt í lokuðum flokki. Þar er lokið sjö umferðum af níu.

Óhætt er að segja að ekki byrjaði vel í lokaða flokknum. Tap í fyrstu fimm umferðum. Í viðtali við Skák.is sagðist Stefán engu að síður ekki hafa teflt illa en ekkert hafi fallið með sér og allt gengið á afturfótunum. Reykjavíkurmeistarinn tók lífsmottó (skákmottó?) Íslandsmeistarans, Helga Áss Grétarssonar, með sér til Serbíu. Skák sé skemmtileg og ekki eigi að láta töp draga úr sér allan kraft.

Keppendur og starfsmenn mótsins í Paracin. Mynd af Facebook.

Í gær fóru fram tvær umferðir. Þá skilaði þrautsegjan sér og vann Stefán báðar sínar skákir og hefur 2 vinninga eftir 7 umferðir.

Úrslit Stefáns á mótinu má finna á Chess-Results.

Í viðtali við Skák.is hafði Stefán þetta að segja um skákir gærdagsins:

Ekki mínar bestu i mótinu, en vinningarnir komu núna. Þegar svona langt er liðið á mót hið seinna i ferðinni, skiptir miklu máli að halda haus og klára hlutina almennilega. Upplegg dagsins var að tefla hraðar, reikna ekki út einhvern óþarfa og forðast tímahrak. Það virkaði vel en i áttundu umferð fæ ég afar sterkan ungan Rússa sem tryggir sér áfanga með sigri, uppleggið er örugg taflmennska og nýta færi ef gefast. Ég hef notið þess að tefla i Serbíu og get hæglega mælt með Paracin fyrir skákmenn.

Næstsíðasta umferð verður tefld í dag og mótinu lýkur á morgun. Umferðin í dag hefst kl. 14:30

 

 

- Auglýsing -