Guðmundur Arason og Baldur Möller árið 1990.

Á morgun, 17. mars, verða 100 ár liðin frá fæðingu Guðmundar Arasonar, fyrrum forseta SÍ og heiðursfélaga. Guðmundur er einn mesti velgjörðarmaður íslenskrar skákhreyfingar fyrr og síðar. Enn eftir fráfall Guðmundar styrkir fyrirtækið ,sem hann stofnaði árið 1970, GA Smíðajárn, vel við hreyfinguna en fyrirtækið gefur öll verðlaun mótsins og hefur reynst skákhreyfingunni ákaflega vel. Fyrirtækið er helsti stuðningsaðili Íslandsmótsins í skák á Akureyri í sumar.

Í tilefni þessara tímamóta verður minningarmót haldið um Guðmund á morgun. Mótið verður haldið í birgðastöð GA í Móhellu 2 í Hafnarfirði. Þar verður teflt í kringum stálbita sem er vel viðeigandi þegar teflt er til heiðurs Stálmanninum eins og Guðmundur var stundum kallaður.

Sjö stórmeistarar eru skráðir til leiks á minningarmótið. Það eru: Hjörvar Steinn Grétarsson, Helgi Áss Grétarsson, Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson, Þröstur Þórhallsson, Bragi Þorfinnsson og Jón L. Árnason.

Alls eru 32 skákmenn skráðir til leiks. Fyrir utan stórmeistarana má sjá marga keppendur af Guðmundar Arasonar mótunum svokölluðu, fulltrúa Íslands á HM öldunga (65+) og fulltrúa verkefnisins Skákframtíðarinnar en Guðmundi var alla tíð æskulýðsstarf afar hugleikið. Sonur Guðmundur, Ari verður einn keppenda.

Keppendalista mótsins má finna á Chess-Results.

Mótið stendur á milli 11 og 13. Áhorfendur velkomnir!

- Auglýsing -