Davíð Kjartansson fagnaði vel og lengi sigri á mótinu.

Á Íslandsmóti skákfélaga sem lauk um síðustu helgi í Rimaskóla var staðfestur sá mikli munur sem er á öflugustu liðum keppninnar í 1. deild og þeim sem verma botnsætin. Hið skemmtilega lið skákdeildar KR hefur innan sinna raða skákmenn af eldri kynslóðinni sem tefla reglulega í hinum ýmsu skákklúbbum á höfuðborgarsvæðinu og hafa haldið sér uppi í efstu deild undanfarin ár en kveðja nú; þó má segja að í kjölsoginu hafi þeir ráðið miklu um það hvernig málin æxluðust á toppnum.

Víkingaklúbburinn hafði þetta aftur og er Íslandsmeistari skákfélaga 2019. Sveitin var með besta liðið á pappírunum, þar af fjóra erlenda stórmeistara. Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason voru á þriðja og sjötta borði og Jón Viktor Gunnarsson á því áttunda.

Í næstsíðustu umferð vann Víkingasveitin skákdeild KR 8:0 og hefðu helstu keppinautarnir, Huginn, kosið þau úrslit líka en á fimmtudagskvöldið rétt marði Huginn sigur yfir KR-ingum, 4 ½: 3 ½. Á þessum úrslitum er mikill munur og það kom fram í lokaniðurstöðunni:

1. Víkingaklúbburinn 53 v. 2. Huginn a-sveit 50 ½ v. 3. Fjölnir 50 v. 4. TR –a sveit 45 5. TG 45 ½ v. 6. Breiðablik , Bolungarvík og Reykjanes 33 ½ v. 7. SA 29 v. 8. TR b-sveit 26 v. 9. Huginn b-sveit 22 v. 10. KR 12 ½ v.

Í 2. deild vann Skákfélag Selfoss og nágrennis og flyst upp í 1. deild ásamt b-liði Víkingasveitarinnar. Í 3. deild vann b-lið Taflfélags Garðabæjar Garðbæinga og flyst lið þeirra upp um deild ásamt Taflfélagi Vestmannaeyja og í 4. deild sigraði b-sveit skákdeildar KR en í 2. sæti urðu Hrókar alls fagnaðar. Þessi lið fara bæði upp í 3. deild.

Víkingasveitin og Huginn áttust við í 7. umferð og það var úrslitarimman í efstu deild. Í fyrra vann Huginn með minnsta mun en nú snerist dæmið við og hefði sigurinn getað orðið stærri en Jón L. Árnason missti unnið tafl niður í tap á 6. borði.

Hannes Hlífar Stefánsson fékk 8 ½ v. af 9 mögulegum og skák hans við Jóhann Hjartarson var án efa hápunktur helgarinnar, frábær viðureign, báðum til sóma:

Íslandsmót skákfélaga 2019; 7. umferð:

Jóhann Hjartarson – Hannes Hlífar Stefánsson

Slavnesk vörn

1. Rf3 d5 2. c4 c6 3. e3 Rf6 4. Rc3 e6 5. Dc2 Bd6 6. b3 O-O 7. Bb2 e5 8. d4

Annar möguleiki var 8. cxd5 cxd5 9. Rb5 Rc6 10. Rxd6 Dxd6 11. d4 e4 12. Re5 með flókinni stöðu.

8. … e4 9. Rd2 Ra6 10. a3 Rc7 11. h3 Re6 12. Be2 Bd7 13. b4 He8 14. Db3 Rc7 15. a4 dxc4 16. Bxc4 Rcd5 17. b5 Hc8 18. O-O Bf5 19. Hfc1 Bb8 20. a5 Dd6 21. Rf1 Dd7

Svartur hefur í hyggju að fórna biskup á h3. Á drottningarvængnum hefur hvítur hinsvegar mikil gagnfæri.

22. Re2 Bxh3 23. gxh3 Dxh3 24. Reg3 h5 25. a6 h4!

Það tekur „vélarnar“ smátíma að átta sig á því að þetta er jafnvel betra en 26. … b6.

26. axb7 Hcd8 27. bxc6

27. … Rh7!

Jóhanni hafði sést yfir þennan bráðsnjalla leik. Hann hafði reiknað með 27. … hxg3 en eftir 28. fxg3 er hvíta staðan betri. Riddarinn stefnir nú á f3.

28. Bxd5 Rg5 29. Bxe4 Hxe4 30. Dd1 hxg3 31. c7 Bxc7 32. fxg3

Ekki 32. Hxc7 g2! 33. Rg3 Hh4 og mátar.

32. … Hxe3!? 33. Rxe3 Dxg3+ 34. Kf1 Rh3!

35. Ke2

Eða 35. Dc2 Df3+ 36. Ke1 He8 37. Ha3 Ba5+! og vinnur.

35. … Dh2+ 36. Kd3 Rf2+ 37. Kc3 Rxd1+ 38. Hxd1 Bb6 39. Rc4 Dc7 40. d5 Dxb7 41. d6 Dc6

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 9. mars 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -