Næstkomandi sunnudag fer fram Bikarkeppni í hraðskák og verður mótið í beinni útsendingu á RÚV. Mótið er liður í meistaradögum á RÚV og ásamt skákinni er keppt í ýmsum greinum, bæði hefðbundnum greinum eins og sundi og badminton og eins jaðargreinum eins og pílukasti og rafíþróttum.

GAMMA er aðalstyrktaraðili mótsins en fyrirkomulagið er þannig að fjórir keppendur mætast í undanúrslitum og svo úrslitum. Teflt verður með tímamörkunum 3+2 þ.e. 3 mínútur á skákina og 2 sekúndur í viðbótartíma fyrir hvern leik. Dregið verður og mætast keppendur í tveggja skáka einvígi í undanúrslitum og síðan er keppt til úrslita. Útsendingin verður um klukkustundar löng.

Keppendur á mótinu eru allir stórmeistarar og verða eftirfarandi:

Hjörvar Steinn Grétarsson vinnur sér rétt sem stigahæsti íslenski skákmaðurinn. Hjörvar er jafnframt stigahæstur Íslendinga á hraðskákstigum og rauf nýlega 2700 stiga múrinn í hraðskák!

Hannes Hlífar Stefánsson vinnur sér rétt sem næst stigahæsti skákmaður landsins. Hannes vann á dögunum sterkt opið mót í Tékklandi og var feykilega sterkur á Íslandsmóti skákfélaga og verður að teljast til alls líklegur.

Helgi Áss Grétarsson er núverandi Íslandsmeistari í skák og vann í fyrra sigur á sterku erlendu hraðskákmóti.

Jóhann Hjartarson er núverandi Íslandsmeistari í hraðskák og tefldi á gríðarlega sterku opnu móti á Gíbraltar fyrr á árinu og stóð sig vel.

Mótið verður eins og áður sagði í beinni útsendingu á RÚV 7. apríl næstkomandi sem er sunnudagur og hefst útsending klukkan 15:00. Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson sér um að lýsa ásamt FIDE meistaranum Ingvari Þór Jóhannessyni. Viðburðurinn verður í sjónvarpssal og eru áhorfendur velkomnir!

- Auglýsing -