Við setningu mótsins.

Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið hið 34. í röðinni hófst í dag í Hörpu. Sem fyrr er GAMMA aðalstyrktaraðili mótsins. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setti mótið í samvinnu við Arkadij Dvorkovich forseta alþjóðlega skáksambandsins sem staddur er hér á landi í tilefni af mótinu.

Eftir setningu var taflið sett í gang en eins og oft áður í fyrstu umferðum er styrkleikamunur nokkur í fyrstu umferðunum. Líkt og í fyrra er ekki jafn mikill munur á styrkleika þar sem notast er við “accelerated pairings” sem gefa jafnari paranir fyrr í mótinu. Engu að síður reyndist erfitt fyrir stigalægri skákmennina að ná í punkta af þeim stigahærri en þó með undantekningum.

Aðeins tvö jafntefli náðust af 25 stigahæstu mönnum mótsins og í öðru þeirra var á ferðinni Atli Freyr Kristjánsson með gríðarlega gott og þétt jafntefli gegn Vladimir Potkin fyrrverandi Evrópumeistara. Stóru byssurnar héldu því allar velli og unnu þeir Gawain Jones og Alirez Firouzja t.a.m. nokkuð örugga sigra í sínum skákum. Íslensku stórmeistararnir Hjörvar Steinn Grétarsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Jóhann Hjartarson og Bragi Þorfinnsson komust allir klakklaust úr sínum viðureigum og unnu.

Fyrsti stórmeistarinn til að liggja í valnum var svo hinn heimsþekkti Andrew Tang (2501), af mörgum þekktur sem “PenguinGM”. Andrew þessi er talinn einn hraðasti og besti “leifturskákmaður” heims og hefur meðal annars háð margar magnaðar orustur við Magnus Carlsen í svokölluðum hyperbullet skákum þar sem keppendur hafa einungis 30 sekúndir til umráða! Sá sem slá um að slökkva í þessari vél var Norðurlandameistarinn nýkrýndi, Stephan Briem (2138).

Fleiri Íslendingar náðu góðum úrslitum og má þar nefna gríðarlega skemmtilegan sigur Gauta Páls Jónssonar (2027) á Vigni Vatnari Stefánssyni (2293) þar sem hinn fyrrnefndi fórnaði skiptamun snemma tafls fyrir sókn. Guðni Stefán Pétursson (2020) oft kallaður “GSP-vélin” mætti vel smurður og lagði Halldór Grétar Einarsson (2279) að velli. Akureyski refurinn Ólafur Kristjánsson (2078) náði einnig góðu jafntefli gegn alþjóðlegum meistara með 2390 stig.

 

Tvær umferðir verða tefldar á morgun þriðjudag. Fyrri umferðin hefst klukkan 09:00 og hin síðari klukkan 17:00. Beinar útsendingar hefjast tveim tímum eftir upphaf umferðar.

Heimasíða mótsins

Skákskýringar á ensku:

Úrslit fyrstu umferðar

Pörun í aðra umferð

Skákir á Chess24

Beina útsendingu fyrstu umferðar er hægt að horfa á aftur hér:

https://www.twitch.tv/videos/408114081

- Auglýsing -