Bikarmót RÚV var hinn prýðilegasta upphitun fyrir skákveisluna sem framundan er í Hörpu. GAMMA Reykjavíkurskákmótið hefst í dag, mánudaginn 8. apríl klukkan 15:00. Nýr forseti Alþjóðaskáksambandsins, Arkady Dvorkovich, verður viðstaddur opnun Reykjavíkurskákmótsins, og mun að öllum líkindum setja mótið.

Mótið að þessu sinni er tileinkað minningu Stefáns Kristjánsson og hefur t.a.m. verið settur upp minningarveggur tileinkaður honum.

Stefán Krisjánsson að tafli á Reykjavíkurskákmótinu

Meira en 250 skákmenn eru skráðir til leiks. Heimavarnarliðið er skipað Hannesi Hlífari Stefánssyni, virkasta íslenska stórmeistaranum, Jóhanni Hjartarsyni, Hjörvari Steini Grétarssyni, Braga Þorfinnssyni, Guðmundi Kjartanssyni og Birni Þorfinnssyni svo nokkrir séu nefndir. Stigahæsti maður mótsins er Gawain Jones en aðrir líklegir eru Nils Grandelius sem varð jafn í efsta sæti á nýliðnu Evrópumóti og íranska ungstirnið Alireza Firouzja, 16 ára, en því hefur verið spáð að einn góðan veðurdag verði hann heimsmeistari í skák! Einnig verður gaman að fylgjast með yngsta stórmeistara heims, Indverjanum Dommaraju Gukesh, 12 ára, og löndum hans Pragnanandhaa og skákdrottningunni Tania Sadchev.

Nils Grandelius er ávallt mikll aufúsugestur hérlendis.

Auk mótsins verður mikið um dýrðir og stórt mót í Fischer slembiskák (fischer random) verður haldið á föstudeginum, pubquiz einnig á föstudeginum og sterkt hraðskákmót á laugardagskvöldið sem er opið.

GAMMA er aðalstyrktaraðili mótsins eins og síðustu ár.

- Auglýsing -