GAMMA Reykjavíkurskákmótið hófst snemma í dag og fystu kóngspeð komin út á borðið laust eftir að klukkan sló 9 í morgun. Hinn árlegi tvöfaldi dagur Reykjavíkurskákmótsins fer einmitt fram í dag, þriðjudag.

Nokkrar athyglisverðar viðureignir voru komnar á skjái skákunnenda og sýnist flestum að “accelerated pairings” sé að gefa góða raun í mótinu, allavega í fyrstu umferðunum. Efstu menn eru strax farnir að fá krefjandi skákir við alþjóðlega meistara með yfir 2400 elóstig og tveir stigahæstu skákmenn mótsins þeir Gawain Jones og Nils Grandelius þurftu að gefa eftir hálfan punkt til andstæðinga sinn. Þetta þýðir að hinn ungi Alireza Firouzja frá Íran er orðinn stigahæstur af þeim sem hafa fullt hús eftir tvær umferðir.

Íraninn vann mjög fumlausan og auðveldan sigur með svörtu mönnunum og lét hann andstæðing sinn líta vægast sagt illa út!

Flestir skákmenn þar fyrir neðan unnu gegn stigalægri andstæðingum en þó náði Dagur Ragnarsson góðum úrslitum þegar hann gerði jafntefli við Jorden van Foreest sem nýlega tefldi í efsta flokknum í Sjávarvíkinni (Wijk aan Zee). Dagur fórnaði á tveimur mönnum fyrir stórhættuleg frípeð og skákin var mjög tvíeggjuð svo ekki sé meira sagt!

Aðrir Íslendingar lentu í skráveifum. Björn Þorfinnsson tapaði gegn Tigran Petrosian heimsmeistaranafna þar sem Björn tefldi of passíft með hvítu, allavega samkvæmt ráðgjafa hans, Jóni Viktori! Hannes Hlífar tók sér hjásetu og missir því hálfan vinning og Hjörvar Steinn Grétarsson tapaði eftir laglegu fléttu Justin Sarkar sem líklega hafði ekki nægar bætur fyrir mann skömmu áður þrátt fyrir góða taflmennsku framan af skákinni.

Jóhann Hjartarson, myndin er frá síðasta Reykjavíkurskákmóti. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Jóhann Hjartarsson er því eini Íslendingurinn í efri grúppunni í hraðpöruninni  (“accelerated pairings”) kerfinu sem er með fullt hús 2 vinninga af 2. Þau Jóhann Ragnarsson, Tinna Kristín Finnbogadóttir og Pálmi Pétur Harðarson eru einnig með fullt hús eftir góða sigra á sér stigahærri skákmönnum.

Sigurbjörn Björnsson náði góðum úrslitum gegn Alexander Fier en stóð víst til vinnings og hefði jafnvel átt að leggja Brassann hættulega. Loks töpuðu flestar af hetjum gærdagsins en þeir Stephan Briem, Guðni Stefán Pétursson og Gauti Páll Jónsson töpuðu allir sínum skákum gegn stigahærri andstæðingum.

Seinni umferð dagsins hefst núna klukkan 17:00 og skákskýringar á engilsaxnesku hefjast um tveimur tímum síðar.

 

Heimasíða mótsins

Skákskýringar á ensku (hefjast þegar 2 klst eru liðnar af umferð)

Úrslit annarrar umferðar

Staðan eftir tvær umferðir

Pörun í þriðju umferð

Skákir á Chess24

Beina útsendingu 2.umferðar er hægt að horfa á aftur hér:

https://www.twitch.tv/videos/408449128

- Auglýsing -