Sjötta umferð Reykjavíkurskákmótsins var tefld í Hörpu í dag. Fyrir umferðina voru fjórir skákmenn efstir og jafnir með fjóran og hálfan vinning og mættust þeir innbyrðis á efstu tveimur borðunum. Á fyrsta borði hafði undrabarnið Alireza Firouzja frá Íran svart gegn Armenanum Robert Hovhannisyan og náði öruggu jafntefli. Á öðru borði mættust Rúmeninn Constantin Lupulescu og Armeninn Sergei Movsesian sem margoft hefur teft á Íslandi. Lupulescu vann peð í miðtaflinu og vann í framhaldinu fremur öruggan sigur. Lupulescu er nú einn efstur þegar þrjár umferðir eru ótefldar.

Lupulescu stóð sig einnig vel á Fischer Random mótinu!

Nokkrir Íslendingar tefldu við sterka stórmeistara. Björn Þorfinnsson hafði framan af skák í fullu tré við fyrrum Evrópumeistarann Vladimir Potkin. Í tímahraki tók Björn óþarfa áhættu sem veikti stöðuna og Rússinn nýtti sér til fullnustu í fáeinum leikjum. Góð skák hjá Birni sem varð bjartsýninni að bráð.

Sigurbjörn Björnsson sem hefur staðið sig vel gegn stórmeisturum tefldi gegn pólska
stórmeistaranum Daniel Sadzikowski og þurfti að játa sig sigraðan í þetta skiptið. Sömu örlög hlaut Bragi Þorfinnsson sem tefldi gegn hinum hláturmilda sænska stórmeistara frá Svíþjóð, Nils Grandelius.

Margfaldur Íslandsmeistari kvenna Guðlaug Þorsteinsdóttir átti góða skák gegn Guðmundi Kjartanssyni. Guðmundur hafði að loks nauman sigur í endatafli.

Maður dagsins var án efa Dagur Ragnarsson. Franski stórmeistarinn Matthieu Cornette sá snemma tafls ríka ástæðu til þess að koma drottningu sinni á a7. Það plan reyndist fleigðarflan hið mesta og vann Fjölnisdrengurinn nokkuð öruggan og áreynslulausan sigur í 73. leikjum. Dagur er efstur Íslendinga með fjóran og hálfan vinning ásamt Hannesi Hlífari Stefánssyni sem vann laglegan sigur í dag.

Endurspilun á beinni útsendingu dagsins með Fionu og Ingvari

Heimasíða mótsins

Skákir á Chess24

- Auglýsing -