Nýr forseti FIDE Arkady Dvorkovich. — Ljósmynd/Chess Base

Nýr forseti Alþjóðaskáksambandsins, Arkady Dvorkovich, verður viðstaddur opnun Reykjavíkurskákmótsins, minningarmóts um Stefán Kristjánsson, sem hefst í Hörpu á mánudaginn. Hann var aðalframkvæmdastjóri HM í knattspyrnu í Rússlandi sl. sumar og þótti standa sig vel. Þótt hann sé ekki óumdeildur og þyki hafa sterk tengsl við Pútín Rússlandsforseta tóku flestir kjöri hans vel og ekki er útlit fyrir þrásetu hans í stóli eins og fyrirrennarans, nú hefur verið girt fyrir þann möguleika að forseti FIDE starfi lengur en í átta ár.

Dvorkovich mun hitta Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og ræða þá hugmynd, að í tilefni 50 ára afmælis einvígis aldarinnar verði heimsmeistaraeinvígið árið 2022 haldið hér á landi. Þó að lítil umræða hafi farið fram innan skáksamfélagsins hér og að einvígi Fischers og Spasskís sumarið ’72 lifi eiginlega sjálfstæðu lífi hefur hefur Gunnar Björnsson, forseti SÍ, sent inn kostnaðaráætlun upp á 700 milljónir sem er til skoðunar hjá ráðuneytinu.

Meira en 250 skákmenn eru skráðir til leiks. Heimavarnarliðið er skipað Hannesi Hlífari Stefánssyni, virkasta íslenska stórmeistaranum, Jóhanni Hjartarsyni, Hjörvari Steini Grétarssyni, Braga Þorfinnssyni, Guðmundi Kjartanssyni og Birni Þorfinnssyni svo nokkrir séu nefndir. Stigahæsti maður mótsins er Gawain Jones.

Sannkallað einvalalið ungra skákmanna mun tefla í Hörpu. Má þar nefna tvo Írana, Alireza Firouzja, 16 ára, en því hefur verið spáð að einn góðan veðurdag verði hann heimsmeistari í skák, og Parham Maghsoodloo, sem er heimsmeistari unglinga 20 ára og yngri. Og þarna verður yngsti stórmeistari heims, Indverjinn Dommaraju Gukesh, 12 ára, og landar hans Pragnanandhaa og skákdrottningin Tania Sadchev.

GAMMA er aðalstyrktaraðili mótsins.

Carlsen efstur í Shamkir

Heimsmeistarinn Magnús Carlsen hefur náð forystu á stórmótinu í Shamkir í Aserbaídsjan sem haldið er til minningar um Vugar Gashimov. Carlsen „sveið“ Anand og Navara í 3. og 4. umferð en þeir náðu sér báðir á strik þrátt fyrir það. Staðan: 1. Magnús Carlsen 3½ v. (af 5). 2.-3. Anand og Karjakin 3 v. 4.-7. Ding, Radjabov, Navara og Grischuk 2½ v. 8. Mamedyarov og Topalov 2 v. 10. Giri 1½ v.

„Skyldubyrjun“ elítumótanna, Berlínarvörnin, hrundi í eftirfarandi skák fimmtu umferðar:

Viswanathan Anand – Anish Giri

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6 4. d3

Það er af sú tíð að menn fór glaðir út í drottningarlausa miðtaflið sem hefst með 4. 0-0 Rxe4 5. d4 Rd6 7. Bxc6 dxc6 8. dxe5 Rf5 9. Dxd8+ Kxd8 o.s.frv.

4…. Bc5 5. c3 0-0 6. Rbd2 He8 7. 0-0 a6 8. Bxc6 dxc6 9. Rc4 Rd7 10. He1 Bf8 11. d4 exd4 12. cxd4 Rb6 13. Rxb6 cxb6 14. h3 b5 15. Bf4 Be6 16. He3

Leikandi létt taflmennska og hvítur er með mun betra tafl.

15…. f6 17. b3 Dd7 18. Dc2 Had8 19. Hd1 Df7 20. Bg3 Dh5

21. Bc7!

Læsir drottningarvængnum og undirbýr gegnumbrot á miðborðinu.

21…. Hd7 22. Bb6 Bb4 23. Re1 Bf7 24. Rd3 Bd6 25. Hde1 Bb8 26. f4 f5 27. Re5! Bxe5 28. dxe5 fxe4 29. Dxe4 Hd2 30. H3e2 Bd5 31. De3 Hxe2 32. Hxe2 Df5 33. g4 Db1 34. Kf2 h5 35. f5 Dh1 36. Kg3!

Frábær leiktækni. Kóngurinn er í öruggu skjóli og svartur án mótspils.

36…. He7 37. Bc5 He8 38. e6 Kh7 39. Dg5

– og Giri gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 6. apríl 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -