Við setningu mótsins.

Nýkjörinn forseti FIDE, Arkady Dvorkovich, heimsótti Ísland í tilefni GAMMA Reykjavíkurskákmótsins í ár. Í heimsókn sinni hitti hann meðal annars forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsótti gröf Fischers og Fischersetur og tók þátt í opnun GAMMA Reykjavíkurskákmótsins. Auk heimsóknar í Bláa lónið!

Lagði starfandi forseta

Dvorkovich var kjörinn forseti FIDE síðasta haust þegar hann lagði Grikkjann Georgios Makropoulos (Makro) að velli. Makro hafði starfað í skjóli, Kirsan Ilyumzhinov, og verið í stjórn FIDE síðan 1986. Síðustu árin var hann starfandi forseti vegna vandræða Kirsans.

Ferskir vindar hafa blásið um FIDE síðan Dvorkovich var kjörinn forseti og ástandið þar hefur að flestra mati stórbatnað. Dvorkovich er reynslumikill en hann var um tíma aðstoðarforsætisráðherra Rússlands og formaður undirbúningsnefndar HM í fótbolta. Hann var viðstaddur 27 leiki á HM í Rússlandi og þar á meðal leiks Íslands og Argentínu. Sá Hannes verja vítið frá Messi!

Forsetaheimsókn

Í heimasókn á Bessastöðum.

Forseti Íslands tók á móti vel á móti okkur á Bessatöðum. Með okkur í för var, sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton Vsevolodovich Vasiliev.

Í heimsókn Arkady til forsetans á Bessastöðum, Guðna Th. Jóhannessonar, var meðal annars rætt um einvígi aldarinnar árið 1972 og hvernig mætti fagna 50 ára afmæli þess árið 2022.  Forsetinn sagði meðal annars sögur frá heimsókn Fischers á Bessastaði 1972 þar sem hann var lengst afar afundinn en varð barnslega glaður sína þegar hann sá þakglugga þar sem sólinn skein inn!

Stuðningi við skákkennslu á Íslandi lofað

 

Ásamt menntamálaráðherrra

Á fundinum með mennta- og menningarmálaráðherra var líka rætt um hvernig mætti minnast hálfrar aldar afmælis heimsmeistaraeinvígisins. Bæði forseti FIDE og ráðherra voru sammála að þess þyrfti að minnast á eftirminnilegan hátt.

Mest var þó rætt um hvernig mætti efla skákkennslu í skólum hérlendis. Lofaði Dvorkovich því að FIDE væri tilbúið að styðja við slíkt verkefni hérlendis og þá ekki síst við þjálfun skákkennara. Með á fundinum var Smbat Lputian, skólastjóri armenska skákskólans, og formaður nefndar FIDE um skák í skólum. Engin þjóð hefur náð betri árangur við skákkennslu í skólum en Armenía. Luptian og Dvorkovich fóru yfir rannsóknir sem sína það svart á hvítu að skákkennsla í skólum eykur námsárangur.  Armenski skákskólinn er tilbúinn að leggja fram námsefni Íslandi að kostnaðarlausu sem nota mætti við skákkennslu hérlendis. Aðeins þarf að þýða.

Við gröf meistarans.

Nefnt var að Ísland hentaði ákaflega vel fyrir pilot-verkefni fyrir skák í skólum. Menntamálaráðherra er ákaflega jákvæð fyrir slíkum hugmyndum og bauð Lputian menntamálaráðaherra í kjölfarið að senda fulltrúa frá ráðuneytinu á ráðstefnu um skák í skólum sem fram fer í Armeníu 7. og 8. maí nk. Þangað fer greinarhöfundur að öllum líkindum einnig.

Leiði meistarans heimsótt

Að Fischer-setri

Dvorkovich og Luptian fóru í gær að leiði Fishcers og lögðu þar blóm að leiði meistarans. Í kjölfarið var komið við Fischer-setur þar sem Aldís Lárusdóttur, og Guðmundur G. Þórarinsson tóku á móti hópnum og sýndu þeim setrið.

Forsetinn og fyrirrennarinn

Lokadaginn var haldinn kvöldverður Dvorkovich til heiðurs. Þar hitti hann fyrirrennara sinn, Friðrik Ólafsson, í fyrsta skipti og er að óhætt að segja að vel hafi farið á með forsetunum. Dvorkovich bauð Friðriki að vera viðstöddum opnum FIDE Grand Prix-móts sem haldið verður í Moskvu 15.-30. maí nk.

Arkady Dvorkovich og Friðrik Ólafsson.

Það er óhætt að segja að heimsókn Dvorkovich hafi verið árangursrík og um leið ákaflega ánægjuleg. Maðurinn er einkar viðkunnanlegur og virðist um leið halda ákaflega vel um stjórnartaumanna í FIDE.

- Auglýsing -