Síðasta umferð Reykjavíkurskákmótsins var tefld í Hörpu fyrr í dag. Fyrir umferðina voru Rúmenarnir Lupulescu og Parligras efstir ásamt Englendingnum Gawain Jones. Rúmenarnir tefldu innbyrðis og sömdu fljótlega jafntefli eftir rólega skák. Jones hafði þar með möguleika á að sigra á mótinu ynni hann Hollendinginn l’Ami Erwin. Jones fékk ágætis stöðu eftir byrjunina en Hollendingurinn bætti stöðu sína og stóð mun betur um tíma. Jones kom til baka og jafntefli niðurstaðan eftir langa skák. Þessi úrslit þýddu að Rúmenarnir tveir og Jones enduðu efstir ásamt fimm öðrum skákmönnum; Grandelius frá Svíðþjóð, Firouzja frá Íran, Petrosjan frá Armeníu, Tari frá Noregi og Gupta frá Indlandi. Eftir stigaútreikning varð Rúmeninn Lupulescu úrskurðaður sigurvegari Reykjavíkurskákmótsins og er hann vel að því kominn eftir að hafa leitt mótið lengi vel.

Hannes Hlífar Stefánsson varð efstur Íslendinga með sex og hálfan vinning vinning. Hannes vann Guðmund Kjartansson í síðustu umferðinni. Guðmundur, Hjörvar Steinn Grétarsson og Jóhann Hjartarson enduðu með sex vinninga. Jóhann tefldi langa og mjög spennandi skák við við íranska ungstirnið Alireza Firouzja sem er ekki orðin 16 ára gamall en nálgast þó óðfluga 2700 skákstigin. Jóhann átti í fullu tré við Íranann en varð að lokum að játa sig sigraðan. Hann heldur nú rakleiðis til Ródós þar sem hann teflir með íslenska landsliðinu á HM 50ára og eldri. Á því móti er íslenska liðið vel skipað kollegum Jóhanns úr stórmeistarastétt og til alls líklegt.

Dagur Ragnarsson sem átti möguleika á að verða alþjóðlegur meistari í dag mistókst ætlunarverk sitt eftir tap gegn hollenska skákmanninum Kevlishvili. Dagur komst þó yfir 2400 stig á mótinu og seinasti áfanginn því eina hindrun hans sem eftir er á leiðinni að alþjóðlegum meistaratitli.

Á Reykjavíkurskákmótinu 2019 tefldu 240 keppendur frá 32 þjóðum.

- Auglýsing -