Hörkubarátta Guðmundur Kjartansson og Héðinn Steingrímsson gerðu jafntefli í gær eftir 79 leiki . — Morgunblaðið/Sigurður Arnarson

Héðinn Steingrímsson stendur með pálmann í höndunum þegar lokaumferð Opna Íslandsmótsins fer fram í dag í Hofi á Akureyri. Héðinn hefur ½ vinnings forskot á helstu keppinauta sína sem eru Hannes Hlífar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson og Jón Viktor Gunnarsson.

Staðan fyrir lokaumferðina er þessi: 1.-2. Ivan Sokolov og Héðinn Steingrímsson 6 ½ v. ( af 9 ) 3.- 6. Hannes Hlífar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson, Jón Viktor Gunnarsson og Tiger Hillarp Persson 6 v. 7. – 10. Bragi Þorfinnsson, Mikhael Jóhann Karlsson, Stefán Bergsson og Justin Sarkar 5 ½ v.

Í lokaumferðinni hefur Héðinn hvítt gegn Svíanum Tiger Hillarp Persson, Guðmundur hefur hvítt gegn Ivan Sokolov, og Hannes Hlífar hefur hvítt gegn Jóni Viktor Gunnarsson. Héðinn getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri. Ef ekki, þá standa líkur til þess að stigaútreikningur muni ráða því hver verður Skákmeistari Íslands 2019. Stigaútreikningur hefur aldrei haft slíkt vægi í meira en 100 ára sögu Íslandsmótsins.

Opna Íslandsmótið er haldið nyrðra í tilefni 100 ára afmælis Skákfélags Akureyrar og hefur framkvæmdin öll tekist með miklum ágætum og aðstæður góðar í Hofi. Mótið er haldið með því óvenjulega sniði að það er öllum opið, líka erlendum skákmönnum. Þeir fremstu eru gamlir vinir okkar, Ivan Sokolov og Tiger Hillarp Persson.

Ivan Sokolov hóf mótið með því að vinna sex fyrstu skákir sínar en tefldi síðan ótrúlega illa gegn Héðni í 7. umferð og tapaði. Hann gerði stutt jafntefli við Hannes Hlífar í gær. Guðmundur Kjartansson og Héðinn tefldu langa og magnaða baráttuskák í gær sem lauk með jafntefli eftir 79 leiki. Það hallaði á Héðin um tíma en undir lokin þurfti Guðmundur að tefla nákvæma vörn til að halda jöfnu.

Keppendur eru 59 talsins og margir hafa verið að ná góðum árangri og mikið um óvænt úrslit. Guðmundur Gíslason hefur t.a.m. unnið bæði Héðin og Helga Áss. Akureyringarnir Mikhael Jóhann Karlsson og Stefán Bergsson hafa staðið sig vel, einkum sá fyrrnefndi sem hefur lítið teflt undanfarið. Benedikt Briem hefur hækkað mest allra, um 82 elo-stig.

Íslandsmeistarinn, Helgi Áss Grétarsson, hefur ekki náð sér á strik að þessu sinni en í 3. umferð fékk hann stöðu sem sjaldan kemur upp, en þar var hann með kóng og tvo riddara gegn kóngi og peði. Það er ein af duttlungum skákgyðjunnar að sé peðinu ekki til að dreifa, þá er staðan fræðilegt jafntefli, en með því að skorða peðið og setja kónginn í pattstöðu má hleypa peðinu af stað. Ef ég man rétt er hægt að vinna ef t.d. svart peð á a4, b6, c5, d4, e4, f5, g6 eða h4 er skorðað með riddara. Vegna 50 leikja reglunnar, sem ógnar alltaf þeim sem reynir að vinna, virtist Helgi ekki ætla að klára dæmið t.d. þegar hann upp úr þurru skákaði með riddaranum sem skorðaði e5-peðið. Jóhann hefði getað þvælst betur fyrir en átti aðeins 19 leiki eftir til að geta krafist jafnteflis. Þá kom þessi staða upp:

Opna Íslandsmótið 2019; 3. umferð:

Helgi Áss Grétarsson – Jóhann Ragnarsson

84. Ke8! Kg6

Ekki 84. … Kg8 85. Rf5 Kh7 86. Kf7 o.s.frv.

85. Kf8 Kh5 86. Kg7

Rekið í réttirnar!

86. … Kh4 87. Kg6 Kh3 88. Kg5 Kh2 89. Kg4 Kh1 90. Kh3 Kg1 91.Kg3 Kh1 92. Rf2+ Kg1 93. Rh3+ Kh1 94. Rg4

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 1. júní 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -