Helgi Áss í félagskap þeirra sem enduðu í 4.-10. sæti. Áfram Helgi! Mynd: Heimasíða mótsins.

Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson (2433) endaði í sjöunda sæti á Norðurlandamótinu í skák sem lauk í gær í Sarpsborg. Helgi vann sænska stórmeistarann Thomas Ernst (2432) í lokaumferðinni. Helgi hlaut 6 vinninga í 9 skákum.

Norski stórmeistarann Frode Urkedal (2525) vann öruggan sigur á mótinu en hann hlaut 8 vinninga. Fróði fór keppnisrétt á heimsbikarmótinu í skák í haust. Annar varð landi hans og kollegi úr stórmeistarastétt, Benjamin Arvola Notkecich (2485).

Skákmeistari Norðurlanda 2019 – Frode Urkedal. Mynd: Heimasíða mótsins.

Lenka Ptácníková (2145) varð í öðru sæti á Norðurlandamóti kvenna sem teflt var inn í opna flokknum. Lenka hlaut 4 vinninga og náði sér engan veginn á strik á mótinu. Getur miklu betur. Norðurlandameistari kvenna varð norska skákkonan Sheila Barth Sahl (2127).  Aðeins fimm skákkonur tóku þátt og athygli vakti að aðeins voru skákkonur frá Noregi og Íslandi.

Baldvin Þorláksson (1523) tefldi í Norðurlandamóti öldunga og endaði með 4 vinninga. Hann stóð sig afar vel og hækkar um heil 75 skákstig. Norðurlandameistari í flokki 65 ára og eldri varð norski FIDE-meistarann Jarl H Ulrichsen (2180). Svíinn Kristian Eirksson (2111) varð Norðurlandameistari 50 ára og eldri.

Næsta Norðurlandamót verður haldið á sama árstíma árið 2021. Hvar það verður haldið liggur ekki fyrir en íslensk skákfélög munu hafa tækifæri á að bjóðast til að halda mótið.

- Auglýsing -