Tveimur umferðum er nú lokið á Evrópumóti ungmenna hér í Bratislava í Slóvakíu. Mikið gekk á í annarri umferðinni en að henni lokinni er það aðeins Vignir Vatnar sem hefur tvo vinninga úr skákunum tveimur.

Ekki var það nú góður undirbúningur fyrir meirihluta hópsins þegar rútan á mótsstað fylltist….og það nánast hættulega. Þeir sem stóðu rétt komust inn þannig að dyrnar á rútunni gætu lokast. Níu úr okkar hóp urðu að gera sér að góðu að panta leigubíla sem á ekki að vera boðlegt þegar boðið er upp á frítt transport á mótsstað.

 

Vattvélin mundar f-peðið ógurlega!

Vignir var sá eini sem vann í fyrstu umferð sem fékk sigur í sinni skák. Sigurinn var þó ekki auðsóttur! Vignir fékk betra að þvi er virtist í miðtaflinu en missti þráðinn og var með aðeins verra ef eitthvað er. Þá fékk hann skyndilega gjöf!

Svartur var að leika 35…Dc3 og hvítur svaraði með 36.Hxa6?? Vignir svaraði því að bragði með 36…Hxa6 37.Hxa6 Hb2 og þakkaði pent fyrir drottningargjöfina!

Hilmir verið klaufi framan af móti.

Hilmir Freyr tapaði klaufalega aðra skákina í röð og aftur með kolunnið tafl. Í raun er ólíklegt að hann hafi áður verið með jafn kolunnið tafl á ferlinum og ekki unnið skákina! Hilmir missti þráðinn seint í skákinni og missti af fjölmörgum leiðum andstæðingsins og vinningsleiðum fyrir sig.

Ég sá þessa stöðu í útsendingunni og spáði í raun ekki meira í henni. 26…gxf1=D+ er kex-unnið og tölvuapparatið er með mat eitthvað á borð við -13. Hilmir var reyndar kominn í nokkuð mikið tímahrak hér og átti eitthvað um mínútu eftir hér. Hann missti því miður af einföldum leiðum, t.d. eftir 27.Hxf1 þá er 27…Ba6 léttunnið og eins 27…He4. Gerður leikur 27…Dg6 er í raun enn unnið en þar missti Hilmir einfaldlega af því að leika 28…Df7 aftur eftir 28.Rh4 sem hann missti af. Tvö grátleg töp en það er mikill karakter í Hilmi og hann á eftir að koma til baka í þessu móti og mun sýna sitt rétta andlit!

Skákirnar hjá Arnari Milutin og Birki Ísak voru skemmtilegar og báðir tefldu sama afbrigði í Najdorf. Andstæðingar þeirra léku báðir 6.h3 og íslensku strákarnir léku báðir …h6 og tefldu skemmtilegt afbrigði með …g5 sem þeir höfðu undirbúið og Kasparov og Mamedyarov hafa báðir teflt. Úr varð hörkuskák en Arnar missti því miður af góðum séns þegar hann hefði betur leikið 22…Rc6 í stað 22…Bc5.

Birkir Ísak tefldi líka mjög fína skák og missti því miður líklegast af mjög vænlegri leið í lokin þegar hann tók þrátefli.

Stephan Briem lenti gegn sterkum alþjóðlegum meistara og var undir pressu mest alla skákina. Stephan var þó að verjast vel og virtist vera að komast í “holdable” endatafl. Svartur fann þá nokkra þétta leiki og fékk unnið tafl. Hann gerðist þó sekur um of mikinn flottræfil hér:

Horvarth ætlaði að vera flottur og drap 33…Dxe3?? og eftir 34.fxe3 d2 vann hann eftir leik Stephans 35.Kf2? Hinsvegar átti Stephan massífan séns á að tröllgrísa með því að leika 35.b5!! og svartur getur gefið! Ef svartur fær sér drottningu verður hvíta b-peðið að nýrri drottningu og ef ekki kemur Db4+ og d-peðið fellur.

Á skákstað höfum við Íslendingar einn “coach-passa” sem gefur okkur rétt til að vera inni í sal en hinsvegar getum við ekki gengið inn í salinn og skoðað stöðurnar nema í 10-15 mínútur á 2ja tíma fresti, klukkan 17 og 19 að staðartíma en skákirnar byrja klukkan 15:00. Eilítið þreytandi kerfi en mótshaldið gengur samt ágætlega.

Panorama mynd af mótsstað

Maturinn á mótsstað er ekkert sérstakur enda kannski erfitt að hafa hann merkilegan fyrir meira en 2000 manns (örugglega nær 3000!). Menn hafa því ýmist látið sig hafa það eða skroppið út í verslunarmiðstöðina sem er rétt hjá en þar er að finna fína veitingastaði auk McDonalds, Burger King og KFC. Það verður spennandi að sjá hvort það koma tvær rútur að sækja okkur núna á eftir….sýnist það raunar um leið og þessi orð eru rituð. Rúturnar heim eru hinsvegar ansi erfiðar og ég, Birkir Ísak og Hilmir gáfumst upp á að bíða og troða okkur í síðustu rútuna eftir síðustu skákir dagsins í gær og létum okkur hafa að taka bíl heim aftur.

Guðrún komst á blað með sannkallaðri “Briem-baráttu”
Benedikt aka BenPump beitti Frakkanum af stakri snilld, Zibbit hefði verið stoltur af þessari skák!

Önnur úrslit vísast í töflu. Gunnar Erik vann fínan sigur og Guðrún og Jósef komust á blað með flottum baráttusigrum! Loks tefldi Benedik Briem mjög góða skák og vann sigur í sinni skák.

Í þriðju umferðinni fær Vignir aftur andstæðing sem er stigalægri og stýrir hvítu mönnunum.  Vonumst eftir góðum úrslitum í dag!

- Auglýsing -