Vattvélin mundar f-peðið ógurlega!

Vignir Vatnar Stefánsson fer svo sannarlega vel af stað á Evrópumeistaramóti ungmenna hér í Bratislava í Slóvakíu. Fjórtán íslensk ungmenni taka þátt á mótinu þar sem keppt er í flokkum frá U8 upp í U18. Vignir teflir í flokki U16 þ.e. 16 ára og yngri og hefur nú 3 vinninga eftir þrjár umferðir. Í fyrstu tveimur umferðunum voru heilladísirnar á bandi okkar manns sem tefldi ekkert sérstaklega en fékk engu að síður tvo vinninga í þeim skákum. Í þriðju umferðinni fór “Vatt-vélin” hinsvegar í gang og gaf andstæðingi sínum engan grið!

Tékkneskur andstæðingur Vignis, Ondrej Svanda skartaði FM-titli og 2245 elóstigum en það hjálpaði honum ekkert í skák dagsins! Á boðstólnum var Grunfeldsvörn og beitti Vignir Bf4 afbrigðinu sem undirritaður hélt mikið upp á í “gamla daga” og margir hafa beitt með góðum árangri. Ekki var þó um undirbúning að ræða þar sem andstæðingur hans hafði engar skákir í gagnagrunninum í Grunfeld. Þó er það tilfinning undirritaðs að oft má reikna með Grunfeld landlægt hjá Ungverjum og Tékkum en þessi byrjun hefur iðullega verið vinsæl hjá skákmönnum frá þessum löndum.

Grunfeldsvörnin átti í raun undir högg að sækja í þessari umferð en Birkir Ísak vann sína fyrstu skák í U18 flokknum gegn Grunfeld. Birkir tefldi eins og herforingi og þá má með sanni segja að hann sé “criminally underrated” með rétt tæp 2000 stig. Birkir þarf bara smá trú á sjálfan sig og hann mun fljúga upp stigalistann næstu misseri og það auðveldlega!

Hilmir Freyr hélt upp á 18 ára afmælisdag sinn í dag með því að komast á blað. Hilmir hefur verið seinheppinn framan af móti en nú verður blaðinu snúið við! Andstæðingurinn var kæfður niður í upphafi skákar og hefði í raun aldrei átt að eiga neinn séns. Smá hliðarspor komu ekki að sök og andstæðingurinn var knésettur.

Hilmir fékk svo smá afmælisglaðning nú í kvöld, afmælissöng, ís og létt gjafir. Hópurinn almennt léttur á því.

Jósef er að koma sterkur inn í U8 flokkinn og hefur nú unnið tvær skákir í röð! Hann virtist alltaf hafa yfirhöndina í skák dagsins og sterkari en sinn andstæðingur!

Flott hjá Jósef sem er mikið efni og á ekki langt að sækja hæfileikana og hvað þá þjálfunina!

Stephan Briem var einnig í beinni útsendingu og náði að kvitta fyrir tapið í gær. Lukkudísirnar voru nokkuð hliðhollar okkar manni en andstæðingur hans féll á tíma í tvísýnni stöðu!

Heilt yfir var þetta langbesti dagur íslensku keppendanna en heilir 8 vinningar komu í hús! Guðrún Fanney vann sína aðra skák í röð og Batel vann í sannkallaðri maraþonskák. Benedikt Þóris komst einnig á blað. Þeir Bjartur, Gunnar Erik, Adam, Tómas, Benedikt og Arnar Milutin töpuðu sínum skákum.

Fjórða umferð er á sama tíma og venjulega á morgun. Vignir er nú kominn á annað borð og er einn af fáum sem eru enn með fullt hús í U16 flokknum. Verður spennandi að fylgjast með “MegaVatt-vélinni” í næstu skákum.

- Auglýsing -