Íslensku keppendurnir voru heldur betur fjótir að jafna sig á Svartsjúkunni sem alla jafna er ólæknandi en það er töggur í íslensku keppendunum á Evrópumeistaramóti ungmenna hér í Slóvakíu. Krakkarnir skiluðu 8.5 vinningum í hús af 14 mögulegum. Besti dagurinn hingað til og hefði getað orðið enn betri!

Vignir Vatnar Stefánsson náði sér aftur á strik í dag eftir örlítið hliðarspor í 5. umferðinni. Vignir lagði andstæðing sinn eftir langa og stranga skák. Vignir fékk tvo riddara fyrir hrók og peð og náði svo jafnt og þétt að véla peð af andstæðingnum og svo ryksugaði hann upp kóngsvænginn í endataflinu. Mega-Vatt vélin er vonandi komin aftur!

Þessi sigur fleytir Vigni í 4.5 vinning af 6 og hagstæð úrslit á efstu borðum gerðu það að verkum að efstu menn hafa 5 vinninga þannig að Vignir er í ákveðnu færi ef allt gengur upp. Stefnan er samt bara að taka eina skák í einu enda ekki annað hægt!

U16 er að mörgu leiti okkar besti flokkar og þar er einnig Stephan nokkur Briem sem tefldi við hlið Vignis í dag. Þeir stúdera mikið saman og beittu þeir í raun báðir útgáfu af “e3 poision” sem er nýlegt bók sem mælir með ákveðinni aðferðafræði í byrjuninni. Andstæðingur Stephans er líka vinur Vignis og var hann víst eitthvað örlítið fúll eftir skákina þar sem hann grunaði að Vignir hefði hjálpað Stephani við undirbúning…..en ekki hvað??

Stephan fékk fína sénsa út úr byrjuninni og virtist á köflum vera vinningsmöguleika en jafntefli varð á endanum niðurstaðan.

Í U16 er einnig hinn eiturhressi Arnar Milutin Heiðarsson. Arnar hafði svart í dag og beitti Najdorf. Arnar virtist hafa fína stöðu í miðtaflinu og hörkubarátta var á borðinu en því miður datt það ekki hjá Arnari í dag. Arnar er með stigalægri mönnum í flokknum en hefur teflt vel og staðið sig vel og mun raða inn stigum á þessu móti.

Staða efstu manna í U16

Báðir keppendur voru í beinni útsendingu í U18 flokknum. Hilmir Freyr Heimisson var á mikilli siglingu fyrir umferðina með 3 sigra í röð. Andstæðingur dagsins var erfiður og gaf engin færi á sér. Í raun var hvítur að reyna að pressa alla skákina en Hilmir varðist vel. Þurfti hann að hafa mikið fyrir jafnteflinu sem hafðist þó á endanum eftir góða baráttu. Hilmir er því enn ósigraður á 19. aldursárinu, það er bara þannig!

 

Birkir Ísak er VÉL í Najdorf….það er líka bara þannig! danskur andstæðingur hans í dag komst að því að eigin raun. Staðan var aðeins betri á hvítan en eftir 17.Kg3? sem var aðeins of mikill Alphazero leikur fékk Birkir eiginlega frumkvæðið skuldlaust og lét það aldrei af hendi það sem eftir var skákar. Flottur sigur hjá Birki sem er að ná í fullt af stigum á þessu móti enda alltof underrated.

Við færum okkur alla leið niður í U8 flokkinn en þar var síðasta skákin í dag sem var í beinni útsendingu eftur Svartsjúkuna í gær!

Josef hefur verið að tefla hreint alveg skínandi vel á köflum og meirihluta skákar í dag tefldi hann eins og herforingi. Byrjunin var brösótt og hefði andstæðingur hans átt að nýta sér það betur. Josef hinsvegar varðist eins og hann gat og eftir að hann vann sig inn í skákina tefldi hann mjög vel, vann peð og hélt því lengi. Skákin ílengdist hinsvegar töluvert og eftir yfir 4 klukkutíma setu einfaldlega missti Jósef einbeitinguna og skildi hrók eftir í dauðanum. Skiljanlegt hjá 8 ára dreng en mér hefur þótt rosalega margt jákvætt í taflmennsku Jósefs á mótinu!

Bjartur Þórisson í U10 vann sinn fyrsta alvöru sigur eftir hjásetuna í gær. Hann nýtti sér taktíska möguleika seint í skákinni og vann skiptamun sem reyndist nóg. Flottur sigur hjá Bjarti og vonandi að þetta gefi honum gott sjálfstraust fyrir síðustu umferðirnar.

Benedikt Þórisson (hvítt) og Benedikt Briem (svart) mættust því miður í U14 flokknum. Því var ekki fullt hús í boði fyrir okkar keppendum þar sem þvingað var að samtals myndi tapast einn vinningur í þessari viðureign hvernig svo sem færi. Benedikt Briem hafði betur að þessu sinni, vélaði peð í byrjuninni og hafði að lokum betur.

Strákarnir í U12 náðu í 2 vinninga af 3 í dag. Tómas Möller og Gunnar Erik unnu góða sigra en Adam Omarsson varð að játa sig sigraðan.

Stelpurnar stóðu sig einnig vel í dag. Guðrún Fanney Briem var fyrst að klára í dag og vann sína skák. Skák Guðrúnar var það snörp að ég sló hana inn en hún er hér. 17. leikur svarts gleymdist að skrifa og því ekki alveg öruggt hverju var leikið þar.

Eins og sagði að ofan hefðu vinningarnir getað orðið fleiri í dag þrátt fyrir að heilt yfir hafi þetta verið okkar besti dagur. Batel tefldi fína skák í kóngsindverja og var peði yfir með mislita biskupa og báðir keppendur með hrók. Hún náði því miður ekki að nýta umframpeðið og jafntefli niðurstaðan.

Úrslit dagsins:

 

Pörun 7. umferðar er hér að neðan. Hilmir fær mjög sterkan andstæðing og Vignir og Stephan fá báðir dauðfæri á að bæta í búið með vel viðráðanlega andstæðinga. Gunnar Erik fær 5. stigahæsta keppandann í sínum flokki. Sýnist mér á öllu að við fáum töluvert fleiri en 5 borð í beina útsendingu í 7. umferðinni!

 

- Auglýsing -