Er upphafsstaða á skákborðinu þvingað jafntefli eða unnin á hvítt? Einhver ofurtölva 21. aldar mun fyrr eða síðar svara þeirri spurningu en kapparnir tólf sem tefla á Sinquefield-mótinu í Saint Louis virtust ætla að svara þeirri spurningu með einu orði – jafntefli! Í fyrstu fjórum umferðunum, 24 skákum, varð alltaf jafntefli – nema í einni skák. Menn hresstust verulega í 5. umferð, en langar kappskákir virðast á undanhaldi. Svo rækilega eru byrjanaafbrigði sundurgreind að sigurvonin liggur oftast í jafnteflislegum endatöflum, t.d. eftirfarandi stöðu sem kom upp í 5. umferð Sinquefield-mótsins:

Nepomniachtchi – Nakamura

Nakamura lék nú 57. … b4 og tapaði eftir 67 leiki. Það virtist engin knýjandi þörf á peðsleiknum. B5-peðið valdar c4-reitinn og „tónar“ vel við biskupinn. Sennilega hefur Nakamura óttast að eftir 57. … Ba3 komi 58. exf5+ Kxf5 59. Kd4. Hann gat líka 57. … fxe4+ 58. Kxe4 Bd2.

Um þessa stöðu fóru fram athyglisverðar umræður á einni spjallsíðu og komu þar við sögu meðal annarra Svidler, Khalifman, Marin og „Tablebase“, sem ég vil leyfa mér að gefa nafnið „Taflan“ – gagnagrunnur sem geymir lista yfir allar stöður sem geta komið upp (500 billjónir) með sjö taflmönnum, ásamt tæmandi úttekt á hverri þeirra, og úrskurðaði að hvítur væri með unna stöðu hverju svo sem svartur léki. Í augnablikinu teljum við níu menn á borði en einhvern tímann mun skiptast upp á e- og f- peði og þá verða eftir sjö.

Það er of langt mál að rekja atburðarás þessarar skákar en mikil speki rann upp úr mönnum og í umræðunni miðri var skyndilega í brennidepli skák sem þeir tefldu Taimanov og Fischer í Buenos Aires árið 1960. Þekking þess síðarnefnda í erfiðri vörn þótti undraverð. Greinarhöfundur gat ekki betur skilið en að „Taflan“ hefði fundið eitthvert frávik sem gerbreytti möguleikum svarts til varnar.

Líf í tuskunum hjá Braga í Helsinki

Það var heldur meira líf í tuskunum þar sem Bragi Halldórsson sat að tafli á 75 ára afmælismóti Heikki Westerinen sem fram fór í Helsinki og lauk um síðustu helgi. Gengi Braga var misjafnt, hann hlaut 3 vinninga af 9 mögulegum og hafnaði í 8. sæti af 10 keppendum sem tefldu allir við alla. Ein skák sem Bragi tefldi vakti mikla athygli:

Bengt Hammar – Bragi Halldórsson

Caro-Kann

1.e4 c6 2. d4 d5 3. Rc3 dxe4 4. Rxe4 Bf5 5. Rg3 Bg6 6. Bc4 Rf6 7. R1e2 e6 8.O-O Bd6 9. f4 Bf5 10. Rxf5 exf5 11. Rg3 g6 12. He1+ Kf8 13.Bb3 h5 14. a3 Rbd7 15. Df3 h4 16. Re2 Re4 17. c4 Rdf6 18. Bc2 Kg7 19. b3 He8 20. Bb2 Kg8 21. Rc3

Bragi lék á afar „mannlegan hátt“, eins og það var orðað á bloggsíðu Lars Grahn. Hann missti af 21. … Bxa3! og eftir 22. Hxa3 Dxd4+ 23. De3 kemur 23. … Rxc3! Nú er 24. Dxd4 þvingað en eftir 24. … Hxe1+ 25. Kf2 Hae8! og vinnur t.d 26. Bxc3 Rg4+ 27. Kf3 Hf1+ og mát í næsta leik. Framhaldið tefldi Bragi engu að síður af miklum þrótti:

22. g3?

Betra var 22. Rxe4.

22. … hxg3 23. hxg3 Rxg3! 24. Dxg3 Bxf4 25. Dh3 Kg7! 26. Df3

Meira hald var í 26. d5 en eftir 26. … Hh8 27. Df3 á 27. … Be5 að vinna.

26. … Rg4 27. d5 Be3+! 28. Kg2

Eða 28. Kf1 f6 o.s.frv.

28. … Dh2+ 29. Kf1 Bd4! 30. Re2 Bxb2 31. Ra2 Re3+

– og hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 24. ágúst 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -