Stóri fiskurinn slapp Rússinn Kovalev var með unnið tafl gegn Magnúsi Carlsen. — Morgunblaðið/John Saunders

Ein óvæntustu úrslit Íslandsmóts skákfélaga á dögunum urðu þegar Skákfélag Akureyrar vann Hugin 5½:2½ í 4. umferð. Akureyringar höfðu styrkt sveit sína með hinum kunna danska stórmeistara Sune Berg Hansen en það var á neðri borðunum sem úrslit keppninnar réðust. Jón Kristinn Þorgeirsson, Rúnar Sigurpálsson, Áskell Örn Kárason og Arnar Þorsteinsson unnu á fjórða, fimmta sjötta og áttunda borði og það gerði útslagið. Fyrr á þessu ári vann hinn tvítugi Jón Kristinn elsta aldursflokkinn á Norðurlandamóti 20 ára og yngri. Skákir hans margar einkennast af dirfsku og hugmyndaauðgi. Hann virtist ætla að brjóta allar brýr að baki sér í eftirfarandi viðureign á 4. borði en Einar Hjalti missti tækifæri strax í 8. leik og lenti fyrir vikið í varnarstöðu:

Jón Kristinn Þorgeirsson (SA) – Einar Hjalti Jensson (Huginn)

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d4 cxd4 6. cxd4 Bb4+ 7. Rc3 Rxe4 8. d5?!

Hæpinn leikur en þekkt er að 8. 0-0 Bxc3 9. d5 Bf6! gefur ekki neitt.

8…. Bxc3+?

Stór mistök. Eftir 8…. Rxc3 9. bxc3 Bxc3+ 10. Bd2 Bxd2+ 11. Dxd2 Re7 hefur hvítur engar teljandi bætur fyrir peðin tvö.

9. bxc3 Ra5 10. Bd3 Rf6 11. Da4 c5 12. Bg5 b6 13. 0-0 h6

Einari gast ekki að 13…. 0-0 14. Dh4 og varla er hægt að stugga við biskupinum vegna fórnar á h6.

14. Hfe1+ Kf8 15. Dh4 Bb7 16. He5 Kg8 17. Bxf6 Dxf6

18. Hae1! Hf8

Ekki 18…. Dxh4 19. He8+ og mátar.

19. Dg3 c4 20. Bb1 g6 21. Rd4 Kh7 22. H1e4 d6 23. Hf4!

 

 

 

Glæsilega leikið. Ef nú 23…. Dxe5 þá 24. Hxf7+! Hxf7 25. Dxg6 mát. Svartur getur einnig reynt 23…. Dxf4 24. Dxf4 dxe5 25. Dxe5 He8 en þá kemur 26. Re6! og vinnur, t.d. 26. fxe6 27. Dc7+ Kg8 28. Bxg6 Hf8 29. dxe6 o.s.frv.

23…. Dg7 24. He7 Bxd5 25. Rf5! Df6 26. He3 He8 27. Rxh6 Hxe3 28. fxe3

– og svartur gafst upp. Eftir 28…. Dxc3 29. Rxf7! er hann varnarlaus.

97 skákir án taps

Magnús Carlsen hefur nú teflt 97 kappskákir í röð án taps og nálgast met á þessu sviði. Kínverjinn Liren Ding var taplaus í 100 skákum og Mikhail Tal tefldi 95 skákir án taps á tímabilinu 1973-’74. Rússinn Sergei Tiviakov á samt metið en hann tefldi 110 skákir án taps fyrir nokkru. Magnaðasta sigurganga skáksögunnar er hins vegar eignuð Bobby Fischer, sem vann 20 skákir í röð með sigrum í sjö síðustu umferðum millisvæðamótsins í Palma á Mallorca í árslok 1970 og fram að annarri skákinni í einvíginu við Tigran Petrosjan í Argentínu haustið 1971 ásamt 12 sigrum í einvígjunum við Mark Taimanov og Bent Larsen. Talið er útilokað að það afrek verði nokkru sinni endurtekið meðal bestu skákmanna heims.

Litlu munaði að Magnús tapaði fyrstu skák sinni frá 31. júlí 2018 fyrir Mamedyarov á skákmóti í Sviss. Í 4. umferð FIDE Grand Swiss-mótsins á Mön sl. sunnudag var hann með gjörtapað tafl gegn Rússanum Kovalev en slapp með jafntefli. Eftir sjö umferðir af ellefu er hann í námunda við toppinn. Staða efstu manna er þessi:

1.-2. Caruana og Aronjan 5½ v. 3.-9. Magnús Carlsen, Wang, Grischuk, David Anton, Maghsoodloo, Alekseenko og Vitiugov 5 v.

Sigurvegarinn öðlast sæti í áskorendakeppninni á næsta ári. Caruana á þar víst sæti og Magnús Carlsen hefur einnig frítt spil.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 19. október 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -