Það hafðist loks hjá íslensku landsliðsmönnunum að hafa sigur á Evrópumóti landsliða hér í Batumi í Georgíu. Andstæðingar dagsins voru Skotar og sigur vannst 2,5-1,5 og Skotarnir reyndust erfiðir að leggja að velli.

Á tíma var hætt komið að sigurinn næðist í höfn og þar sem liðsstjóri íslenska liðsins hafði lýst yfir að hann myndi fara á árabát heim til Íslands strax eftir viðureign ef sigur ynnist ekki var ljóst að einhverjir vildu rétta fram hjálparhönd!

Til þess kom þó ekki sem betur fer!

Hannes hafði hvítt á fyrsta borði og beitti ítalska leiknum. Andstæðingur hans Alan Tate er með traust byrjunarkerfi og tefldi án þess að skapa mikla veikleika. Hannes hafði allt örlítið betri stöðu og smá pressu en ekki nóg til að kreysta út vinning. Hannes sagði eftir skákina að kannski hafi verið einn tímapunktur sem hann átti smá séns. Fínt liðakeppnisjafntefli þar sem var teflt upp á tvö úrslit (sigur eða jafntefli) og taphættan saman og engin.

 

Dagur lenti snemma í alvarlegri beyglu þegar hann lenti í trikki sem hann þekkti alveg en gleymdi sér um stund þegar hann hélt að hann myndi transpósa í annað afbrigði eftir ..De7. Þess í stað kom standard trikk í þessum grótgarðs-stöðum Rc4! Dagur kominn með stöðulega mjög erfitt tafl og eyddi alltof miklum tíma á þessum tímapunkti eða klukkutíma á næsta leik. Þrátt fyrir að vera í algjörri skítastöðu svo snemma tafls náði Dagur að berjast fram í eina lengstu skák umferðarinnar og andstæðingur hans gerði sitt besta til að leika af sér peði til baka svona fimmta hvern leik en því miður dugði það ekki til og Dagur varð að gefa eftir að hafa verið stutt frá því að byggja óbrjótanlegan varnarmúr eftir að hafa verið með koltapað tafl. Fín barátta hjá Degi!

Þrátt fyrir að skák Dags hafi verið síðust að klárast vissu Helgi og Bragi í raun hvar þeir þyrftu að gera miklu fyrr. Sem betur fer fengu þeir nokkuð snemma tafls vænlegar stöðu. Báðir unnu þeir skiptamun en Bragi fórnaði þó sínum til baka fyrir hættulegt frípeð. Vinningurinn var hinsvegar ekki auðsóttur hjá þeim báðum og alls ekki útséð með það að vinningur næðist í báðum skákum. Liðsstjóri var farinn að iðast ansi mikið um í sæti sínum á þessum tímapunkti. Sem betur fer reyndust stöðurnar það mikið betri og styrkleikamunurinn það mikill að sigur náðist í báðum skákunum og þar með okkar fyrsti sigur, 2,5-1,5 gegn sveit Skota sem er klárlega sterkari en stigin gefa til kynna.

Þótt órúlegt sé var sigurskák Helga Áss Grétarssonar fyrsta sigurskák okkar Íslendinga með hvítu mönnunum hér á EM í heilum 12 tilraunum! Afskaplega slöpp uppskera á þeim bænum og ein aðalástæðan fyrir óviðunandi árangri hingað til.

Á toppnum unnu Rússar sigur á Ivanchuk og félögum á fyrsta borði en þar lagði Andreikin Chucky að velli í mjög vel tefldri skák hjá Rússanum. Skák Dubov var eins og oft áður mjög frumleg og hægt að mæla með því að kíkja á hana.

Mikill hugur er í okkar mönnum að fylgja þessum sigri eftir og þegar þessi orð eru skrifuð hafa menn þegar hafið undirbúning fyrir viðureign morgundagsins gegn Litháen.

Litháar hafa ekki skiptimann og því auðveldara fyrir okkar menn að undirbúa sig fyrir þá viðureign. Fyrsta borðið hjá þeim hefur staðið sig vel og fjórða borðið verið traust en sóknarfæri eru á þriðja borði þar sem Litháinn gæti verið eilítið brotinn!

Áfram Ísland!

- Auglýsing -