Kátur hópur Blika.

Skákdeild Breiðabliks ákvað annað árið í röð að bjóða efnilegum iðkendum deildarinnar upp á þátttöku á alþjóðlega helgarskákmótinu í Hasselbacken í Stokkhólmi. Alls voru 26 í hópnum sem kom með til Svíþjóðar, 11 iðkendur, 13 foreldrar og 2 þjálfarar. Lenti hópurinn um hádegi á fimmtudeginum og átti því góðan frítíma þar sem mótið byrjaði um kvöldmatarleytið á föstudeginum. Nýttu flestir tímann vel til þess að skoða stórborgina Stokkhólm. Varð Tívólíið Gröna Lund vinsælt og sást mikið í grænar peysur í tækjum garðsins.

Á skákmótinu var skipt í tvo flokka og tefldu 10 skákmenn á aldrinum 6-14 ára í Lilla Hasselbacken sem var flokkur fyrir 1600 elóstig og undir og einn skákmaður í aðalmótinu.

Margir af þeim strákum sem tóku þátt voru að taka þátt á sínu fyrsta stóra skákmóti og nældu þeir sér í dýrmæta reynslu. Áttu flest allir virkilega gott mót og 8 af 11 skákmönnum stóðu sig betur m.v styrkleika á mótinu og komu skákmenn Skákdeildar Breiðabliks með 100 elóstig sem bætast við íslenska stigahagkerfið.

Gunnar Erik (1736) tefldi í aðalflokknum og stóð sig vel. Hann er flott fyrirmynd fyrir hina strákana og er enn á ný að sanna sig sem öflugur skákmaður. Endaði hann með 3,5v af 8, með tæplega 1800 í rating performance.

Í flokknum Lilla Hasselbacken voru Íslendingar áberandi á toppnum, bæði frá Fjölni og Blikum.

Óttar Örn og Ísak Orri enduðu báðir með 6v af 8 og voru í toppbaráttu allt mótið og stóðu sig með mikilli prýði, Óttar Örn tefldi úrslitaskák í seinustu umferðinni gegn Kristján Degi um sigur á mótinu, en því miður fyrir Óttar tapaðist sú skák. Óskum við Kristjáni Degi til hamingju með sigur á mótinu.

Gaman var að sjá strákana standa sig svona vel, eftir miklar stúderingar að undanförnu og hefur Ísak lengi beðið eftir þessu “stökki” og er því vel að þessu kominn.
Með áframhaldandi æfingu munu þeir báðir rjúka upp stigalistann á næstu misserum.

 

Ísak Orri og Óttar Örn stóðu sig báðir vel.

Framhaldshópur Skákdeildar Breiðabliks

Hópurinn hefur æft stíft seinustu mánuði alls 3x í viku með Birki Karl.

Af þeim 8 sem tóku þátt voru nokkrir sem stóðu sig afar vel og ber helst að nefna frábæran árangur Mikael Bjarka sem endaði mótið með 50 % sigurhlutfall og rúmlega 300 stigum hærra rating performance en sín eigin skákstig!

Ólafur Fannar stóð sig sömuleiðis frábærlega, en hann var að tefla á sínu fyrsta kappskákmóti og tókst að leggja tvo stigamenn af velli í kappskákunum. Magnað var að sjá hversu mikið hann hefur bætt sig á stuttum tíma, hann nýtti tímann vel og tefldi nokkrar skákir virkilega vel. Nældi hann sér í elóstig á þessu móti sem er ansi vel af sér vikið á fyrsta mótinu. 

Arnar Logi fékk heldur betur skák sem hann mun seint gleyma, tefldi hann á móti 18 ára gömlum blindum Svía sem tók alls 3 klst og 45 mínútur ! Varð þetta virkilega áhugavert þar sem báðir voru komnir í mikið tímahrak á lokametrunum og landaði Svíinn sigri. Móðir Arnars Loga, Hildur sat við hlið hans allan tímann, þýddi sænskuna og las bók á meðan!

Arnar Logi tefldi við blindan andstæðing.

Aðrir sem voru að stíga sín fyrstu skref á Alþjóðlegu skákmóti og stóðu sig vel voru Matthías Björgvin, Birkir Hallmundarson, Daníel Davíðsson, Guðmundur Orri og Jóhann Helgi og taka þeir allir dýrmæta reynslu með sér frá þessu móti og munu klárlega bæta sig mikið á næstunni með góðri ástundun.

Þessi ferð sameinaði hópinn okkar enn frekar sem og hóp foreldra.

Þökkum við kærlega fyrir vel heppnaða ferð.

Sjáumst að ári Stockholm!

Birkir Karl Sigurðsson yfirþjálfari fr.h. Skákdeildar Breiðabliks
Kristófer Gautason Formaður Skákdeildar Breiðabliks

- Auglýsing -