Þungt hugsi. Ísland vann Taíland í 4. umferð Ólympíumóts 16 ára og yngri. Alexander Oliver Mai, Stephan Briem og Vignir Vatnar við taflið í Tyrklandi. — Morgunblaðið/Heimasíða

Íslendingar eru eina Norðurlandaþjóðin sem tekur þátt í Ólympíumóti 16 ára og yngri sem fram fer í Corum í Tyrklandi þessa dagana. Alls hófu 48 sveitir keppni og A-Evrópuþjóðir setja sterkan svip á mótið. Lið Aserbaídsjan og Kasakstan voru í efsta sæti eftir fimmtu umferð sem fram fór í gær, bæði með 9 stig. Íslenska sveitin sem er skipuð Vigni Vatnari Stefánssyni, Stephani Briem, Oliver Aroni Mai, Benedikt Briem og Batel Goitom hefur hlotið 5 stig og 10 ½ vinning eftir 3:1-sigur á Makedóníu í gær og sigur yfir Taílandi í 4. umferð. Sveitin var í 26. sæti og teflir við Kanada í dag.

Þessi mót eru góður skóli fyrir okkar yngstu skákmenn og Tyrkir sem hafa haldið þau undanfarin ár gera það vel. Vopnaskak Tyrkja undanfarið hefur sennilega átt þátt í því að nær allar V-Evrópuþjóðirnar sitja heima en þegar friðvænlegar horfði ákvað SÍ að sniðganga ekki mótið. Samt er loft lævi blandið; Ísraelsmenn mættu til að tefla við Írak í fyrstu umferð en þeir síðarnefndu létu ekki sjá sig.

Vignir Vatnar, Stephan Briem og Batel Goitom voru með á ólympíumótinu í fyrra og eru þau öll reynslunni ríkari. Vignir hefur hlotið 4 vinninga af 5 mögulegum, Stephan Briem 3½ vinning og bróðir hans Benedikt hefur einnig staðið sig vel. Hann tefldi skínandi vel í gær:

Ol 16 og yngri; 5. umferð:

Kristijan Velkovskí – Benedikt Briem

Frönsk vörn

1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rd2 c5 4. exd5 Dxd5 5. Rgf3 cxd4 6. Bc4 Dd8 7. 0-0 Rc6 8. Rb3 a6 9. Rbxd4 Rxd4 10. Rxd4 Dc7 11. Bb3 Bd6 12. h3 Re7!?

Athyglisverð leikáætlun sem Benedikt hefur lengi lumað á. Yfirleitt er riddaranum valinn staður á f6.

13. He1 0-0 14. Be3 Rg6 15. De2 Bh2+ 16. Kh1 Bf4 17. Had1 b5 18. Bxf4 Rxf4 19. De5 Dxe5 20. Hxe5 Bb7 21. f3 Hfd8 22. c3 Hd6 23. Hee1 Had8 24. a3 h5!

Svarta staðan er heldur betri því erfitt er að eiga við riddarann á f4 og peðameirihlutinn á kóngsvæng er ógnandi.

25. h4 Rg6!

Vinnur peðið.

26. Bc2 Rxh4 27. Kh2 g6 28. Kg3 Rf5+ 29. Bxf5 gxf5 30. Hc1 Kg7 31. Hh1 Kg6 32. Hce1 He8 33. f4 f6 34. Hhf1 Be4!

Hægt og bítandi hefur svartur náð að bæta stöðu sína.

35. Hd1 Hed8 36. Hde1 e5 37. Rb3 Hd3+ 38. Kh2 H8d5 39. Hf2 h4 40. Hee2

Nú er allt til reiðu fyrir lokaatlöguna.

40…. h3! 41. gxh3 Hd1 42. Rd2 Hh1+ 43. Kg3 Hd3+ 44. Rf3 Bxf3 45. Hxh3 Hxh3+

– og hvítur gafst upp. Gott handbragð hjá þessum unga manni.

Úkraínumenn og Rússar efstir á EM í Batumi

Íslenska landsliðið sem lýkur í dag keppni á EM landsliða Í Batumi í Georgíu og er skipað þeim Hannesi Hlífari Stefánssyni, Guðmundi Kjartanssyni, Braga Þorfinnssyni, Helga Áss Grétarssyni og Degi Ragnarssyni hefur aldrei náð sér á strik hvað sem veldur og tap í gær fyrir Hvíta Rússlandi, 1½ :2½, gerði endanlega út um vonir manna að viðunandi sæti næðist.

Hægt er að lesa ýmislegt úr úr frammistöðu einstakra liðsmanna, t.d. hefur enginn hefur teflt af öryggi sem er nauðsynlegt í flokkakeppnum. Guðmundur Kjartansson er sá eini sem hefur bætt ætlaðan árangur sinn. Það er alveg magnað að liðsmenn hafa aðeins unnið eina skák með hvítu en tapað sjö sinnum.

Fyrir lokaumferðina eru Úkraínumenn og Rússar efstir með 13 stig en Englendingar voru í 3. sæti með 12 stig. Íslendingar sátu í 35. sæti af 40 þátttökuþjóðum með 6 stig.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 2. nóvember 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -