Í vetur stendur Skáksamband Íslands fyrir fræðsluverkefni sem snýr að því að efla almenna grunnskólakennara í að kenna skák. Skáksambandið stendur fyrir heimsókn í skóla kennarans þar sem kennarinn fylgist með kennslu aðila frá Skáksambandinu í heilan skóladag. Ásamt að fylgjast með kennslunni funda kennarinn og aðili frá Skáksambandinu um hvernig skákkennslu/skákstarfi í skólanum geti verið háttað. Þá verður heimsóknunum fylgt eftir með leiðsögn og ráðgjöf. Um tuttugu skólar víðs vegar á landinu þáðu boð Skáksambandsins um að taka þátt í verkefninu. Flestir skólanna eru á landsbyggðinni og þar af nokkrir á Norðurlandi.

Nemendur á yngsta stigi í Öxafjarðarskóla hlustuðu vel.

Fyrstu heimsóknirnar fóru fram dagana fjórða og fimmta nóvember þegar Stefán Steingrímur Bergsson heimsótti skóla í Öxarfirði og á Þórshöfn.

Heimsóknin til Öxarfjarðar

Glatt á hjalla.

Öxafjarðarskóli er fámennur skóli sem sinnir nemendum frá Kópaskeri og Öxarfirði. Þjóðverjinn Christoph Wöll sem hefur kennt við skólann í nokkur ár er mikill skákáhugamaður og teflir mikið á chess.com. Hann hefur komið af stað þónokkrum skákáhuga í skólanum og m.a. var haldið skákmót í skólanum á síðasta ári með þátttöku bæði starfsmanna og nemenda. Á þessu skólaári er skák kennd sem valfag á elsta stigi ásamt því að nemendur á miðstigi fá annað veifið skákkennslu enda sveigjanleiki í minni skólum oft helsti styrkur þeirra.

Christoph skákkennari lagði Stefán að velli eftir miklar sviptingar.

Stefán kenndi öllum þrjátíu nemendum skólans þennan dag og Christoph fylgdist með. Að því loknu fóru Stefán og Christoph yfir daginn og ræddu um skákkennslu og skákstarf í víðu samhengi. Þá tefldu þeir eina skák þar sem Christoph hafði sigur eftir miklar sviptingar. Skólinn stefnir að þátttöku á Norðurlandsmóti grunnskóla sem Skáksambandið mun standa fyrir á næsta ári.

Farið yfir peðagegnumbrot.

Heimsóknin til Þórshafnar

Frá heimsókninni til Þórshafnar, Hilma skólastjóri og Stefán fylgjast með nemendum í peðaskák.

Daginn eftir var komið að Grunnskóla Þórshafnar. Rúmlega helmingi fleiri nemendur eru í Grunnskólanum á Þórshöfn en fengu þeir þó allir kennslu. Sami háttur var hafður á eins og í Öxafjarðarskóla en nú var það Hilma Steinarsdóttir skólastjóri skólans sem fylgdist með kennslunni. Hilma tefldi sem unglingur í sínum grunnskóla og hefur því góðan grunn til að kenna. Eftir kennsluna fóru Stefán og Hilma yfir ýmsar kennsluaðferðir og leiki í kennslu og ræddu svo framhaldið í skákkennslu skólans.

Aðstæður til skákkennslu eru afar góðar í Grunnskólanum á Þórshöfn enda skólinn nýlega verið tekinn í gegn.

Hilma mun sjálf sjá um skákkennsluna og eru því hæg heimatökin að koma skákinni að í dagskrá nemenda þegar skólastjórinn sjálfur kennir. Á Þórshöfn eru allnokkrir skákmenn og m.a. haldið Meistaramót Þórshafnar flesta Nýársdaga undanfarna áratugi. Þá var haldið þar eftirminnilegt Skákþing Norðlendinga árið 2001.

Stefnt er að næstu heimsóknarlotum í skóla á Norðurlandi vestra og á Suðurlandi.

 

- Auglýsing -