Heimsmeistaramótið hófst í kvöld með 1. umferð. Heimsmeistaramótið er hluti af skákhátíð hér á Hótel Selfoss stutt af Ísey Skyr. Keppendur á Heimsmeistaramótinu eru allir fyrrverandi heimsmeistarar í ýmsum aldursflokkum. Frumleg og skemmtileg hugmynd sem hrutt var í framkvæmd af aðstandendum mótsins!

Skáksalurinn, aðstæður eru mjög góðar fyrir keppendur á Hótel Selfossi!

Keppendur mótsins eru hvaðanæva að úr heiminum eins og sjá má úr fánaborginni á myndinni að ofan. Kvenkyns keppendur mótsins koma frá Íran og Kazakshtan á meðan karlkyns erlendir keppendur koma frá Brasilíu, Egyptalandi, Rússlandi (tveir) og Hvíta-Rússlandi. Heimavarnarliðið skipa svo þrír íslenskir fyrrum heimsmeistara ungmenna.

Það var heimsmeistari sveina 1977, Jón L. Árnason sem setti mótið með því að leika fyrsta leiknum í skák Dinara Saduakassova og Mikhail Antipov.

Fyrsta skákin til að klárast í fyrstu umferð var á milli Héðins Steingrímssonar með hvítt gegn Brassanum Rafael Leitao. Leitao hefur lengi verið fremsti skákmaður Brasilíu og á flotta ferilskrá en nánar má lesa um Leitao hér á heimasíðu mótsins.

Héðinn stýrði hvítu mönnunum og lék kóngspeðinu fram í fyrsta leik með 1.e4. Héðinn er þekktari almennt fyrir 1.d4 byrjanir og því kom þetta andstæðingi hans eilítið á óvart. Héðinn vildi prófa að láta reyna á Sikileyjarvörn Leitao en það er ekkert leyndarmál að þar kann hann vel við sig en á móti e.t.v. auðveldara að undirbúa línu sem huggnaðist Héðni vel allavega í þetta skiptið.

Upp kom týpískt broddgaltarstaða en það heiti er tilkomið af svörtu peðastöðunni sem er eilítið passíf en hún bítur hraustlega frá sér ef hvítur vogar sér of nærri svörtu stöðunni!

Skákin komst aldrei á mikið flug og jafntefli var samið í 22. leikjum þar sem hvorugur tók miklar áhættur. Oft er það með svona skákir að glæsivaríantarnir eru undir yfirborðinu. Í stúderingum eftir skákina skoðuðu þeir félagar t.d. stöðuna eftir 19. leik svarts ef hann hefði leikið 19…d5!? í stað 19…Ba8 sem var leikið í skákinni og Leitao taldi slakan.

Hvíta drottningin er fönguð í lokastöðunni, sannarlega glæsileg leið sem verðskuldar einnig stöðumynd!

 

Semyon var með allt sitt á hreinu gegn Hannesi

Hannes Hlífar mætti rússneska alþjóðlega meistaranum Semyon Lomasov með hvítu mönnunum. Hannes taldi sig hafa fundið leið til að koma honum á óvart í spænska leiknum en kom engan veginn að tómum kofanum hjá Rússanum. Kofinn var reyndar svo fullur að Semyon hafði haft skákina meira og minna á stúderingaborðinu til enda! Mikil uppskipti urðu snemma og Hannes peði yfir en endataflið var aldrei í hættu og jafnteflið öruggt.

Eftir 13. leik hvíts 13.Dd5 urðu mikil uppskipti og keppendur fylgdu skák Vachier Lagrave og Anand frá því fyrr á árinu fram að 17. leik þegar Hannes lék 17.a4 en Lagrave 17.a3

Endataflið bauð svo eins og áður sagði upp á lítið og Hannes varð að sættast á skiptan hlut í 30. leik.

Antipov var fyrstur að leggja heimsmeistara á Heimsmeistaramótinu!

Rússinn Mikhail Antipov hafði svart gegn Dinöru Saduakassovu frá Kazakhstan sem var ekki í stuði fyrir neinar friðarpípur og blés strax til sóknar með 5.h4 gegn Grunfeldsvörn Antipov.

Stúlkan frá Kazakhstan lét svo kné fylgja kviði með 12.Rxh7

En eftir 12…Kxh7 13.g4 Rd4!! snerist taflið í höndunum á henni og sá rússneski tók yfirhöndina sem hann lét ekki af hendi.

Zhigalko og Sara

Miklar flækjur komu upp snemma tafls hjá Hvít-Rússanum Sergei Zhigalko gegn Söru Khadem frá Íran.

Sergi sýndi að hann er kominn til að berjast og fórnaði drottningunni í stöðunni með 15.Dxb8 í stað þess að sætta sig við þráleik (15.Da6 Ha8 16.Db7 Hb8 17.Da6 o.s.fr.v).

Ákvörðunin reyndist rétt, Hvít-Rússinn hafði aðeins betra samkvæmt tölvunum og steig aldrei af bensíngjöfinni og vann góðan sigur.

Helgi í þungum þönkum.

Síðasta skákin til að klárast var skák Ahmed Adly með hvítt gegn Helga Áss Grétarssyni. Það blés ekki byrlega framan af fyrir okkar mann þar sem Adly hreinlega “úðaði” út leikjunum og virtist hafa allt á hreinu. Adly var með 1:35 á klukkunni (byrjunartími 1:30) þannig að hann hafði aðeins bætt við sig tíma útaf viðbótartímanum sem er 30 sekúndur per leik.

Fyrsti leikurinn sem Adly virðist hafa leikið sjálfur (þ.e. ekki tölvuundirbúningur) var í 19. leik.

Hér lék Adly 19.Hfd1?! eftir 12 mínútna umhugsun. Tölvuapparötin telja hvítu stöðuna hinsvegar nánast unna eftir 19.Rxb5! Í kjölfarið varðist Helgi vel árásum Egyptans og var svo að lokum kominn út í endatafl peði yfir. Vinningurinn í því endatafli var hinsvegar ekki auðsóttur og nú var komið að Adly að sýna varnartilburði og hann klikkaði ekki þar og jafntefli varð loks niðurstaðan.

Mótið heldur áfram á Hótel Selfossi á morgun klukkan 17:00

Jón L. Árnason ásamt forseta skáksambandins, Gunnari Björnssyni

Skákir 1. umferðar:

Úrslit og staða á chess-results

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -