Efstu menn. Dagur Ragnarsson, Sigurður Daði og Viggi Vatt. Mynd:

Fide meistarinn Sigurður Daði Sigfússon tefldi eins og herforingi á Sunnudagsmóti á vegum Miðbæjarskákar sem fór fram á Stofunni þann 18. nóvember síðastliðin. Í þetta sinn voru hvorki fleiri né færri en 14 skákir tefldar og gekk sú tilraun mjög vel. Tímamörkin voru 3+2, svo allt mótahaldið gekk nokkuð greitt fyrir sig. Sigurður Daði steig varla feilspor í öllu mótinu, en hann hlaut 12.5 vinning. Hann vann fyrstu sex andstæðinga sína, tapaði þó fyrir Degi Ragnarssyni í sjöundu umferð og gerði eitt jafntefli, í 10. umferð gegn Þorvarði Fannari Ólafssyni. Næstir með 11 vinninga urðu Fide-meistararnir Dagur Ragnarsson og Vignir Vatnar Stefánsson. Gauti Páll Jónsson náði að smeygja sér í fjórða sæti með 10 vinninga eftir vindasamt mót en góðan endasprett. Þrír efstu menn mótsins fengu peningaverðlaun auk gjafabréfs á veitingastaðinn Hanann. Einar Valdimarsson átti magnaða spretti í mótinu, en hann vann meðal annars tvo Fide-meistara, þá Sigurbjörn Björnsson og Róbert Lagerman. Einar hefur þó áður skráð sig á spjöld sögunnar fyrir góðan árangur en á Reykjavíkurskákmótinu árið 2016 stýrði hann hvítu mönnunum til sigurs gegn sænska stótmeistaranum Nils Grandelius, sem þá hafði 2646 Elo-stig. 

Tómas Ponzi og Jóhann Valdimarsson. Mynd: AIN

28 skákmenn tóku þátt í mótinu og þar af voru fimm Fide-meistarar. Í svo löngu móti fá menn tækifæri til að hækka vel á hraðskákstigum, gangi þeim vel. Þar ber fyrst að nefana sigurvegara mótsins, Sigurð Daða, sem hækkaði um heil 66 stig, sem verður að teljast mjög gott. Fjórir skákmenn hækkuðu um meira en 30 hraðskákstig; Þórður Grímsson um 44 sitg, Gauti Páll Jónsson um 40 stig, Björn Grétar Stefánsson um 37 stig og Tómas Ponzi um 32 stig. 

Aðalsteinn og Arnljótur ræða málin að lokinni skák. Mynd: AIN

Um skipulagningu mótsins sáu forsvarsmenn Miðbæjarskákar, þeir Elvar Örn Hjaltason, Héðinn Briem, sem var varadómari, Arnar Ingi Njarðarson, sem tók myndirnar sem fylgja fréttinni, Gauti Páll Jónsson, Þórður Grímsson og Arnljótur Sigurðsson. Aðaldómari mótsins var Róbert Lagerman. Næsta mót á vegum Miðbæjarskákar verður haldið í desember en ekki liggur fyrir staður né stund, en það verður auglýst um leið og það skýrist. Mótin hafa fengið gríðarlegar góðar viðtökur frá skákmönnum af öllum getustigum, og nýliðum, sem er alltaf virkilega gaman að sjá. 

Algörugefnir menn. Mynd: AIN

Miðbæjarskák eru reykvísk félagasamtök sem halda mánaðarleg hraðskákmót í Miðbæ Reykjavíkur, yfirleitt á kaffihúsinu Stofunni, Vesturgötu 3. Mótin eru auglýst á skak.is og eru öllum opin. 

- Auglýsing -