Rússneski stórmeistarinn Mikhail Antipov heldur forystunni á Heimsmeistaramótinu á Hótel Selfossi eftir þriðju umferðina sem fram fór í kvöld. Ísey Skyr Skákhátíðin er í fullu fjöri en Opna Suðurlandsmótið í skák hófst einnig í kvöld.

Hvítu mennirnir reyndust aftur drjúgir en heilir 4 vinningar af 5 komu í hús hjá hvítu mönnunum en þeir voru 4.5 í 2. umferðinni!

Antipov leiðir með 2.5 af 3

Antipov var fyrstur í kvöld að klára sína skák en hafði hafði svart gegn Hvítrússanum Sergei Zhigalko. Antipov kom andstæðingi sínum á óvart og beitti Berlínarvörn í fyrsta skipti á ferlinum. Antipov var ekki í neinum teljandi vandræðum í skákinni og var nálægt því að vera með betra þegar samið var um jafntefli. Mikið var undir yfirborðinu í þessari skák og kannski best að horfa á meistarann sjálfan útskýra það!

Leitao má vel við una eftir fyrstu þrjár umferðirnar, hann teflir hér gegn Söru Khadem

Rafael Leitao var næstur að klára en hann fékk loks að tefla skák með hvítu mönnunm. Brasilíumaðurinn viðkunnalegi dró nefnilega sexuna slæmu þegar dregið var um töfluröð en það þýðir að viðkomandi byrjar með svörtu mennina í tveimur fyrstu umferðunum.

Leitao beitti enska leiknum og hið skarpa Mikenas afbrigði varð fyrir valinu. Sara virtist þó beina skákinni í jafnvægi og virtist vera nýsloppin við mestu vandamálin í stöðunni þegar tók að halla undan fæti og þessi staða kom upp.

Sara lék hér 27…Hb7? og varð að lúta í dúk eftir 28.Ba3 Hcxb5 29.Hxd5 1-0

Rafael leit líka við í beina útsendingu og skýrði út sigur sinn…

Síðustu þrjár skákirnar teygðu anga sína meira í tímahrakið og kláruðust allar á nokkuð svipuðum tíma. Fyrstir af þeim voru þeir Héðinn Steingrímsson og Semyon Lomasov.

Héðinn og Lomasov með jafntefli

Enn á ný virtist Semyon mæta mjög vel undirbúinn til leiks. Kröftugur 9. leikur hans, 9…b5 í stöðunni hér að neðan færði honum fljótlega jafnt tafl.

Semyon fékk mögulega örlítið betra tafl í smástund en svo var eins og staðan væri í jafnvægi út skákina. Semyon bauð jafntefli þegar tímamörkunum var náð sem Héðinn þáði.

Hannes tefldi sína bestu skák í nokkurn tíma í kvöld! Adly var algjörlega ráðalaus.

Hannes Hlífar tefldi frábæra skák í þriðju umferðinni gegn Egyptanum Ahmed Adly. Hannes fékk akkúrat þá stöðutýpu sem hann er hvað bestur í. Upp kom stöðuleg skák þar sem Hannes hafði betra miðborð og taktískar hættur litlar. Egyptinn var hreinlega sundurspilaður og mélaður niður hægt og bítandi. Frábær skák hjá Hannesi!

Dinara lagði Helga Áss í 3. umferðinni

Helgi Áss byrjaði mótið nokkuð vel með þéttum jafnteflum gegn tveimur sitgahæstu keppendunum. Dinara Sadukassova hafði hinsvegar byrjað skelfilega með tveim töpum og lék sig m.a. í mát í 2. umferð í jafnteflisstöðu. Dinara lét slæma byrjun ekki slá sig út af laginu og tefldi aftur af miklum krafti líkt og í fyrstu umferðinni þó hún hafi fengið það allt í andlitið gegn Antipov.

Helgi tók snemma á sig ljótt þrípeð en stóð þá líklegast örlítið höllum fæti. Hann var peði yfir í kjölfarið en með veika stöðu. Dinara vann svo peðið til baka og hafði mikla stöðuyfirburði sem hún hélt úti í tvöfalt hróksendatafl í gegnum tímaharkið og virtist stýra vinningnum í hús af mikilli kostgæfni. Aðeins “klínískari” leiðir voru í boði alveg í lokin en sigurinn aldrei í hættu og Dinara vildi greinilega engar áhættur taka í endann með sigurinn nánast í höfn.

Úrslit 3. umferðar

Staðan eftir 3. umferð

Fjórða umferð fer fram á morgun föstudag og hefst klukkan 17:00. Þá mætast Lomasov og Leitao í mikilvægri skák í toppbaráttunni og Héðinn fær að glíma við forystusauðinn hann Antipov. Hannes og Helgi kljást við stelpurnar þær Söru og Dínöru.

Aðstæður á Selfossi eru með besta móti og skákáhugamenn hvattir til að kíkja á mótið og aðstæður!

Úrslit og staða á chess-results

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -