Toppbaráttan á Heimsmeistaramótinu á Ísey Skyr Skákhátíðinni ætlar að verða æsispennandi. Eftir fimm umferðir eru þrír keppendur efstir og jafnir með 3,5 vinning og Hannes Hlífar Stefánsson kemur í humátt á eftir með 3 vinninga.

Lítum á gang mála í 5. umferðinni

Sergei Zhigalko – Dinara Saduakassova

Saduakassova virtist vel undirbúin í enska leiknum og jafnaði taflið með kröftugum peðaleikjum, …b5 og …d5 í miðtaflinu. Skákin leystist upp í endatafl sem stúlkan frá Kazakhstan hélt auðveldlega.

 

Rafael Leitao – Mikhail Antipov

Enski leikurinn var einnig á boðstólnum hjá Leitao og Antipov. Sama afbrigði og hjá Sergei og Dinöru en Antipov tefldi afbrigðið öðruvísi með framrás í 4. leik …h5!?

Þrátt fyrir tilraun til nokkuð frumlegrar taflmennsku varð aldrei mikið úr skákinni. Leitao fékk örlítið betra tvöfalt hróksendatafl en Antipov valdaði alla veikleika í stöðunni auðveldlega og engin leið var að brjótast í gegn þannig að jafntefli var samið.

Sara Khadem – Semyon Lomasov

Semyon sótti nokkuð hart að Söru skömmu eftir byrjunina. Semyon reyndi að nýta sér betri liðsskipan og þá staðreynd að hvíti kóngurinn var enn á miðborðinu. Sara náði hinsvegar að koma mönnum sínum út og hrókera og þá sat Semyon í raun eftir með ívið lakari stöðu. Sara virtist á leiðinni með að sigla taflinu út í vænlegt endtafl þegar nokkrir linir leikir í röð þýddu að hún tók jafnteflisboði þegar taflið var líklegast aftur orðið jafnt.

Hannes Hlífar Stefánsson – Helgi Áss Grétarsson

Hannes fékk eitthvað betra tafl úr spænskum leik gegn Helga og virtist sigla nokkuð lygnan sjó. Þá kom sterkur leikur hjá Helga.

Hannes missti af 19…Re3! hjá svörtu og Helgi jafnaði taflið. Helgi lék hinsvegar af sér í tímahraki með …Bd4 þegar …Bf6 hefði líklegast haldið stöðunni. Nokkrum leikjum síðar varð Helgi að leggja niður vopn með tapað tafl.

 

Héðinn Steingrímsson – Ahmed Adly

Héðinn virtist fá mjög þægilegt tafl gegn Adly en í miðtaflinu fór eitthvað úrskeiðis og Héðinn sat uppi með mjög veikt peð á e4 sem Adly vann af honum. Það nægði í raun til að sigla vinningnum heim. Adly vann annað peð og hafði svo sigur í drottningarendataflinu þrátt fyrir góða baráttu Héðins.

 

Úrslit 5. umferðar

Staðan eftir 5 umferðir

Pörun 6. umferðar

Taflið heldur áfram á mánudaginn klukkan 17:00. Enginn hreinn topbaráttuslagur verður á ferðinni en Antipov, Adly og Hannes fá allir hvítt og munu reyna að slíta sig frá hópnum.

 

Úrslit og staða á chess-results

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -