Óvænt úrslit Wesley So (t.h.) og Magnús Carlsen að tafli í Bærum. — Ljósmynd/Chessbase

Þetta afbrigði skákarinnar sem kallast Fischer random og stundum Chess 960, heiti sem vísar til fjölda mögulegra upphafsstaða, hefur verið í sviðsljósinu. Mörgum þykir kostur við keppnisgreinina að þurfa ekki að treysta á minnið þegar sest er að tafli. En Boris Spasskí hafði þó ákveðna fyrirvara um Fischer random þegar hann kom hingað til lands sumarið 2005. Sagði að upphafsstaða hefðbundinnar skákar bæri með sér ákveðið samræmi, skipulag og menningarsögu sem ekki væri ástæða til að hrófla við.

En fyrsta opinbera heimsmeistaramótið í greininni hófst í Bærum í Noregi í lok október og lauk með óvæntum sigri Wesley So sem sigraði Magnús Carlsen í lokaeinvígi keppninnar með ótrúlegum yfirburðum, 13½:2½. Magnús hafði áður unnið Fabiano Caruana 12½:7½ og var talinn nær öruggur um sigur gegn Filippseyingnum. Tímamörk voru þrenns konar, 45 mín. á 40 leiki og 15 mín. til loka og enginn aukatími, 15 2 og síðan hraðskákir 3 2. Það voru fleiri stig undir í skákum með lengri umhugsunartíma. Magnús hlýtur að hafa verið verulega illa fyrirkallaður í einvíginu sem var í beinni útsendingu á NRK. Hann gerði furðulegustu mistök.

En það er svolítið kaldhæðnislegt að þessir miklu meistarar, Magnús Carlsen og Garrí Kasparov, hafa báðir fengið eftirminnilega útreið í skákafbrigði því sem nefnt er eftir Bobby Fischer. Fyrir nokkrum vikum tapaði Kasparov, 7:19, fyrir Caruana á skákhátíðinni í St. Louis.

Tvö íslensk lið á EM skákfélaga

Íslensku liðin Taflfélag Reykjavíkur og Víkingaklúbburinn unnu sínar viðureignir á fimmtudaginn í fimmtu umferð Evrópukeppni skákfélaga sem fram fer í Budva í Svartfjallalandi og lýkur um helgina. Tefldar eru sjö umferðir og hefur sveit TR fengið 6 stig en Víkingaklúbburinn er með 5 stig. TR-sveitin er skipuð Margeiri Péturssyni, Helga Áss Grétarssyni, Guðmundi Kjartanssyni og Ingvari Þ. Jóhannessyni auk Omars Salama og Egyptans Mohameds Ezat og er svipuð þeirri sem tefldi á Íslandsmóti skákfélaga í október sl. en sveit Víkingaklúbbsins er ekki eins sterk.

Magnaðasta skák ársins 2019

Daniil Dubov heitir ungur rússneskur stórmeistari sem margir telja að hafi teflt eina mögnuðustu sóknarskák ársins 2019 í viðureign Rússa og Þjóðverja á EM landsliða í Batumi á dögunum. Dubov lagði í mikinn sóknarleiðangur og rak flótta svarta kóngsins yfir á drottningarvæng með því að skáka látlaust á hvítum reitunum g6, h5, d5, h3, e6, c6, og f3. Það var eins og hann væri alltaf að leita að svörtum reit. Það kom með eftirminnilegum 36. leik hvíts. Þar fannst c1-reiturinn:

Daniil Dubov – Rasmus Svane

Drottningarbragð

1. c4 e6 2. Rc3 d5 3. d4 Rf6 4. Rf3 Be7 5. Bf4 O-O 6. e3 b6 7. Dc2 Ba6 8. O-O-O dxc4 9. Rg5 Rc6 10. a3 g6 11. h4 Bd6 12. g3 De7 13. h5 e5 14. hxg6 hxg6 15. Bg2!?

Gott var einnig 15. dxe5 Rxe5 16. Rd5 Rxd5 17. Hxd5 ásamt – f3 og Dh2.

15. … exf4 16. Bxc6 fxg3 17. Kb1 Had8 18. f4 Bc8 19. Hde1 Kg7 20. Rd5 Rxd5 21. Hh7+ Kg8

22. Hxf7! Hxf7 23. Dxg6+ Kf8 24. Dh6+ Hg7 25. Bxd5+ Ke8 26. Dh5+ Kd7 27. Dh3+ Ke8 28. Dh5+ Kd7 29. Be6+ Kc6 30. Df3+ Kb5 31. Bxc4+! Ka5 32. Dd5+ Bc5 33. b4+ Ka4 34. Dg2 Bxb4

Og nú kemur mátfléttan magnaða.

35. Dc6+! Kxa3

 

 

36. Bb3! Bd7 37. Dc1+ Kxb3 38. Dc2+ Ka3 39. Da2 mát.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 9. nóvember

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -