Íslandsmeistaramótið í Fischer Slembiskák (Fischer Random) fór fram laugardaginn síðastliðinn á Hótel Selfossi. Mótið var hluti af Ísey Skyr Skákhátíðinni sem fer fram þar þessa dagana. Fischer Slembiskák er alveg eins og venjuleg skák með þeim breytingum þó að dregið er um upphafsstöðu mannana á fyrstu reitaröð bakvið peðin. 960 möguleikar eru á slíkum uppröðunum og því greinin stundum kölluð “Chess 960” jöfnum höndum við Fischer Slembiskák.

Frídagur var á Heimsmeistaramótinu og nokkrir af erlendu keppendunum þar tóku þátt í mótinu. Tefldar voru 9 umferðir eftir svissneska kerfinu og tímamörkin voru 12+3 þ.e. 12 mínútur á skákina og 3 sekúndur í viðbótartíma á hvern leik. Alls voru keppendur 29 talsins.

Slembiskákin býður oft upp á skemmtileg atvik. Til að mynda hófst ein skák á því að báðir keppendur hrókuðu í fyrsta leik en það er mögulegt í slembiskákinni. Hrókunarreglan er almennt þar sem vefst oft mest fyrir mönnum og jafnvel stórmeisturum. Eins koma oft upp óvenjulegar stöður þar sem peð er oní eftir fyrsta leik þar sem hvítur getur verið með drottningu eða biskup á skálínum sem svartur er ekki vanur að þurfa að bregðast við.

Guðjón Heiðar lenti hér í einni af þessum óvenjulega skálínum og tapaði h7 peðinu í 2. leik

Skemmst er frá því að segja að smátt og smátt stakk Rafael Leitao hópinn aðeins af. Hann fékk 7.5 vinning úr fyrstu 8 skákunum og tapaði aðeins síðustu skákinni gegn Jóni Viktori en mátti við því. Mikhail Antipov náði honum að vinningum eftir mikla baráttu í síðustu umferð en það dugði ekki til þar sem Leitao hafði vinninginn í innbyrðis skák þeirra.

Leitao var í sérflokki og hafði tryggt sér sigurinn fyrir lokaumferðina.

Spennan var öllu meiri í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Jón Viktor hafði flesta vinninga fyrir lokaumferðina, 5,5 vinning en þeir Arnar Gunnarsson og Hjörvar Steinn Grétarsson voru hálfum vinningi á eftir en áttu léttara prógram. Arnar og Hjörvar kláruðu sínar skákir og fylgdust svo með baráttuskák Jóns Viktors gegn Leitao. Þegar Jón Viktor bombaði Rd6+ á Leitao og vann nokkrum leikjum síðar var Íslandsmeistaratitilinn í höfn!

Frábær árangur hjá Jóni Viktori, sérstaklega þegar haft er í huga að hann byrjaði mjög brösuglega með jafntefli gegn Inga Tandra og tapaði svo gegn Guðjóni Heiðari í 2. umferð! Eftir það tók Jón Viktor það sem við kölluðum í gamla daga “running riot” og hafnaði hverjum andstæðingnum á fætur öðrum.

Jón Viktor er líklega eini Íslendingurinn sem hefur orðið Íslandsmeistari í hraðskák, atskák, kappskák, fischer-slembiskák og svo má bæta við óformlegum titli í heili og hönd við þessa súpu! Sannarlega glæsilega gert hjá Jóni!

Jón Viktor byrjaði brösuglega og mátti líklegast þakka fyrir jafntefli gegn Inga Tandra í fyrstu umferð!
Fischer Slembiskákin býður oft upp á frumlega taflmennsku. Hér hefur Doninn farið í framrás á h-peðinu til að opna fyrir drottninguna!
Oddgeir einn af aðalmönnunum bakvið mótið etur hér kappi við Hörð Jónasson
Öllu til tjaldað hér hjá Hjálmari!
Friðrik Ólafsson leit við og spjallar hér við Kristján Örn skákstjóra
Guðjón Heiðar, sigurvegari leitarinnar að Bobby Fischer fyrir aldamótin var tilbúinn að rífa í trékallana þar sem hann þurfti ekki að óttast byrjanir né tefla franska vörn

Skákir sem voru í beinni útsendingu má nálgast hér: http://live.chess.is/2019/Fischer2019/ Einhverjar skákir vantar vegna tæknilegra vandamála. Einnig er vert að skjóta aðeins á íslenska skákmenn. Árið er 2019. Ef þið eruð á borði í beinni útsendingu, setjið kóngana á miðborðið þegar skákin klárast. Kóngar á hvíta reiti e4/d5 þýðir að hvítur vann, kóngar á d4/e5 þýðir að svartur vann. Kóngar á móti hvor öðrum e4/e5 þýðir að skákin var jafntefli. Þetta tryggir að skákin varðveitist. Ef menn hinsvegar byrja að stúdera eða henda öllu inn á borðið (nefni engin nöfn en viðkomandi er nokkuð tapsár!) að þá getur allt farið í vaskinn. Hjálpumst að með þetta, þetta er ekki flókið!

Stöðurnar sem voru dregnar út

Vignir Vatnar varð Íslandsmeistar unglinga í Fischer Slembiskák

Lenka Ptacnikova varð Íslandsmeistara kvenna í Fischer Slembiskák

 

Guðlaug Þorsteinsdóttir varð Íslandsmeistari skákmanna sem komnir  eru á viskualdurinn (50+)

 

Efstu þrír, Arnar Gunnarsson 3. sæti, Jón Viktor Íslandsmeistari og Hjörvar Steinn 2. sæti

Topp 5 á mótinu, Rafael Leitao lengst til vinstri sigurvegari

Fischer Slembiskákin er komin til að vera. Margir lístu yfir ánægju með mótið en einnig þreytu þar sem þessi tegund skákar er mjög strembin þar sem heilabúið fer algjörlega á fullt nánast frá fyrsta leik og miklar einbeitingar er þörf. Klárlega er grundvöllur fyrir almennu mótahaldi í Fischer Slembiskák.

Mótið á Chess-Results

- Auglýsing -