Arnar Ingi frá Miðbæjarskák afhendir verðlaunin til bóndanna.

Það var líf og fjör á Íslandsmótinu í Huga og Hönd sem Menningarfélagið Miðbæjarskák hélt í húsakynum TR, Faxafeni 12, síðastliðinn föstudag. Tefldar voru sjö umferðir með tímamörkunum 5+3. Liðin níu fengu að velja sér skemmtileg nöfn í upphafi móts og aldrei að vita hvort einhver liðanna láti aftur sjá sig að ári. 

Að loknum sjö umferðum höfðu tvö lið skorið sig úr, einum og hálfum vinningi fyrir ofan næstu lið. Þetta voru Bændurnir (FM Róbert Lagerman og ekki CM Símon Þórhallsson) og Börnin (FM Vignir Vatnar Stefánsson og ekki heldur CM Stephan Briem). Sýnir þetta að hugsanlega eru bestu liðin í þessari íþrótt þannig upp stillt að liðsfélagarnir séu nokkuð áþekkir að styrkleika. Þess má geta að stigahámörk á hvert lið voru samtals 4500 hraðskákstig. Í stað þess að láta oddastigin ráða úrslitum, hvar Bændurnir stæðu betur að vígi, var ákveðið að tefla upp á titilinn og var sú viðureign sýnd beint inni á Facebookhópnum íslenskir skákmenn. Fór það svo að bændurnir unnu eftir harða viðureign og eru því Róbert Lagerman og Símon Þórhallsson Íslandsmeistarar í huga og hönd 2020. Þetta var sætur sigur, en þó ekki jafnsætur og súkkulaðið frá Omnom sem þeir hlutu í verðlaun. Menningarfélagið Miðbæjarskák þakkar Omnom kærlega fyrir sitt ljúffenga framlag. 

Hin liðin sjö sem tóku þátt í veislunni voru Uglurnar úr Fossvogi (IM Jón Viktor Gunnarsson og Ingi Tandri Traustason), Öskuraparnir (IM Björn Þorfinnsson og Gauti Páll Jónsson), JamesBond (GM Helgi Áss Grétarsson og Páll Snædal Andrason), KópBois (FM Dagur Ragnarsson og CM Bárður Örn Birkisson), ÓliH (Sigurður Páll Steindórsson og Ólafur Kjartansson), Ég veit það ekki (Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Sigríður Björg Helgadóttir) og Árni&co (Jon Olav Fivelstad og Árni Þorvaldsson). 

Fulltrúar Miðbæjarskákar á þessu móti voru þeir Arnar Ingi Njarðarson, skákstjóri með meiru, og Gauti Páll Jónsson, lykilmaður (einhver þurfti nú að opna húsið!) Við viljum þakka Taflfélagi Reykjavíkur fyrir lánið á skáksalnum, einnig Billiardbarnum, sem buðu upp á mjöður á góðum kjörum, og auðvitað Omnom fyrir súkkulaðið. 

Næsti viðburður á vegum Miðbæjarskákar verður í febrúar næstkomandi. Hann verður auglýstur betur þegar nær dregur, en Menningarfélagið Miðbæjarskák heldur uppi reglulegu skákmótahaldi í Miðbæ Reykjavíkur, og víðar! 

- Auglýsing -