Á Skákdaginn sjálfan, í gær, 26. janúar, á 85 ára afmælisdegi Friðriks Ólafsssonar, var brjóstmynd af skákmeistaranum sjálfum afhjúpuð. Skáksögufélagið, undir forystu Einars S. Einarssonar, fyrrverandi forseta og heiðursfélaga SÍ, gaf Taflfélagi Reykjavíkur, sem fagnar 120 ára afmæli í ár, brjóstmyndina að gjöf.

Ríkharður Sveinsson, formaður TR, bauð gesti velkomna og eftir ræðu Einars afhjúpaði Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra brjóstmyndina , og fór fögrum orðum um Friðrik og framlag hans til lands og þjóðar og skáklistarinnar, sem og Guðmundur G. Þórarinsson sem flutti snjalla tækifærisræðu. Síðan bauð TR til samsætis til heiðurs afmælisbarni dasgsins.

Fjölmargar gestir voru viðtaddir en aftöfnin var við upphaf sjöundu umferðar Skákþings Reykjavíkur.

Kveðja frá FIDE til Friðriks.

Greins Hrafn Jökulssonar á Facebook.

Ræða Einars S. Einarssonar á Skákdeginum

Ágætu samkomu- og afmælisgestir, menntamálaráðherra, formaður og forysta Taflfélags Reykjavíkur – fulltrúar Skáksamband Íslands og annarra taflfélaga – Góðir skákmenn og aðrir gestir.
Í dag fagnar okkar aldni og ástsæli skákmeistari Friðrik Ólafsson 85 ára afmæli sínu, fyrsti og fremsti stórmeistari okkar Íslendinga. Við samgleðjumst honum og hans fólki innilega og árnum honum allra heilla í hans fjarveru. Hefðum að sjálfsögðu óskað þess einlæglega að hann getað verið með okkur við þessa hátíðarathöfn honum til heiðurs hér í dag en byr ræður för og á því höfum við fullan skilning.
Upp úr miðri síðustu öld var íslensku þjóðinni orðið ljóst að fram á sviðið væri kominn ungur skáksnillingur sem hefði alla burði til þess geta skákað þeim bestu í heiminum, sem og varð. Mér er það minnistætt sem unglingi vestur á Ísafirði, þegar fréttir bárust um gufuradjóið af glæstum sigri Friðriks í Hastings um áramótin 1955-56. Sem og frábærri frammistöðu á hans á skákmótum víða um heim í framhaldinu. Þetta kveikti skákáhuga minn og hjá fleirum sem ekki hefur dvínað síðan.
Þýðing þess fyrir Ísland á upphafsárum lýðveldisins að eiga afreksmenn í fremstu röð í heiminum, eins og Friðrik og Vilhjálm heitinn Einarsson, var afar mikilvægt og jók mjög á þjóðarstoltið. Segja má að þeir og fleiri afreksmenn hafi komið Íslandi á kortið með glæsilegri frammistöðu á erlendri grundu.
Það er okkur í forystu Skáksögufélagsins, sem hefur það að markmiði sínu að vinna að því að sögu skáklistarinnar og manntaflsins á Íslandi sé sem best til haga haldið og saga þess og helstu skákmeistara okkar skráð, eins og segir í lögum þess, mikil ánægja að hafa getað komið því í kring að láta steypa brjóstmynd Friðriks í eir og geta fært hana taflfélagi hans, TR, sem verður 120 á ára á þessu ári, að gjöf með stuðningi Alþingis, á stórafmæli hans í dag, honum til heilla.
Gerð brjóstmyndarinnar á sér nokkra lengri sögu. Frummyndin var gerð í gifs fyrir aldarfjórðungi síðan að tilhlutan Ólafs Egilssonar, sendiherra, af hinum fræga rússnesk/bandaríska myndhöggvara, Pjotr eða Peter Shapiró, sem dvaldi hér í Reykjavík við störf vorið 1994. Þá var ég í aðstöðu til þess hjá VISA að geta veitt Skáksambandinu fjárstyrk til að kosta gerð hennar og Friðriks sat fyrir.
Shapiro þessi er m.a. frægur fyrir myndverk af Andrei Sakharov, kjarnorkueðlisfræðingi Rússa, þar sem hana heldur á höfði sínu í lausu lofti milli handa sér, sem og af Leonid Brezhnew og fleiri fyrirmönnum. Svo þegar til tals kom fyrir tveimur árum að láta steypa styttu Friðriks í eir og setja á stall, þá stakk Ólafur upp á því fá það verk unnið í Moskvu, þar sem hann hafði sambönd. Tilboðið sem við fengum þaðan var svo gott að ákveðið var að láta steypa tvær brjóstmyndir nánast á verði einnar.
Upphaflega lögðum við í Skáksögufélaginu, upp með það að láta reisa styttu af Friðriki í miðborg Reykjavíkur. Þau áform hafa hins vegar tafist m.a. vegna þess að búið er breyta útitaflinu við Lækjargötu, sem var kjörinn staður fyrir hana, í leiksvæði barna. Það er engu að síður ætlunin í fyllingu tímans að reisa Friðriki styttu þar, en það er háð samþykki umhverfis- og skipulagsráðs í Reykjavíkur og aðkomu borgarinnar, en Friðrik er heiðursborgari hennar.
Það fer hins vegar ekki síður vel á því að setja aðra brjóstmyndina af tveimur upp hér innandyra í höfuðstöðvum TR, miðstöð skáklistarinnar á Íslandi. Ákjósanlegri staður er vandfundinn þar sem skákiðkendur og unnendur, sérstaklega uppvaxandi skákæska getur notið þess um alla framtíð að hafa einn að fremstu meisturum skákborðsins vakandi yfir sér við tafl, sem er hvatning öllum til dáða og húsprýði mikil.
Glæsilegur stall hefur verið gerður undir styttuna, eins og vera ber, smíðaður af hagleiksmanninum, Ólafi Unnari Jóhannssyni, eftir hugmynd okkar og koparskjöldur settur á.
Við afhjúpun brjóstmyndarinnar/listaverksins munum við njóta aðstoðar Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra mennta- og menningar, sem heiðrar okkur hér með nærveru sinni.
Áður en ég lýk máli mínu vil ég leyfa mér geta þess við þetta tækifæri að einnig hefur verið unnið að því á undanförnum árum á vegum Skáksögufélagsins að láta skrifa skákævi- og afrekssögu Friðriks Ólafssonar, en heimasíða SSF og hans var opnuð fyrir 4 árum.
Mér er það því alveg sérstök ánægja að geta greint frá því hér og nú, fyrir hönd ritnefndarinnar, sem í sitja auk Friðriks, þeir Jón Þ. Þór og Jón Torfason að Friðriks saga Ólafssonar, sem er vinnuheiti bókarinnar, og skráð er af Helga Ólafssyni, stórmeistara, rit- og bókasmið, mun koma út síðar á þessu ári í samstarfi við Hið íslenska bókmenntafélag. Þetta er ölllum sem að þessu máli koma mikið fagnaðarefni.
Bókin, sem verður all mikil að vöxtum, vandaður prentgripur með myndum, skákum og mótatöflum, fjallar eðli málsins samkvæmt um glæsileg skákafrek Friðriks og litríkan æviferil. Þar mun lesendum gefast kostur á að sitja við fótskör meistara Friðriks og heyra hann rekja sögu sína í eigin persónu, nokkuð sem engin skákunnandi má láta fram hjá sér fara.
Fram til vors gefst áhugasömum forkaupendum kostur á því að skrá sig á Tabula Gratulatoria eða heillaóskaskrá, rafrænt á síðu SÍ og HÍB eða skriflega, eins og nánar má lesa um í kynningarbæklingi sem hér liggur frammi.
Að lokum vil við ég færa öllum sem komið hafa að undirbúningi alls þessa og athafnarinnar hér okkar albestu þakkir og bið frú Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra, að ganga fram og sveipa hulunni af listaverkinu þarna bak við tjaldið.
- Auglýsing -