Hæfileikaríkur Alireza Firouzja við taflið á síðasta Reykjavíkurskákmóti. — Morgunblaðið/Ómar

Eftir átta umferðir af þrettán í A-flokki stórmótsins í Wijk aan Zee í Hollandi hafði hinn 16 ára gamli Írani Alireza Firouzsja, sem nú um stundir teflir undir fána FIDE, náð forystu ásamt Fabiano Caruana og var þá heilum vinningi á undan heimsmeistaranum Magnúsi Carlsen. En hans beið erfitt verkefni í næstu tveimur umferðum; í níundu tapaði hann fyrir Magnúsi og í þeirri tíundu fyrir Caruana. Að sumu leyti minnti framganga hans á annan 16 ára gamlan pilt sem hafði heldur ekki tekið út allan sinn skákþroska á þessum aldri; Bobby Fischer tefldi glæsilega á köflum í áskorendamótinu 1959 en gegn tveimur verðandi heimsmeisturum, Tal og Petrosjan, fékk hann aðeins einn vinning úr átta skákum.

Eins og margir muna var heilmikið brambolt í kringum skák Firouzja og Magnúsar á HM í hraðskák á dögunum. Þegar skákin var tefld í Wijk var Magnús að slá met í hverri umferð og hefur nú teflt 117 kappskákir í röð án taps.

Þeir sem vilja kynna sér betur handbragð og skákstíl Norðmannsins ættu kannski að veita því athygli að Magnús lagði stöðu Firouzja í rúst án þess að ráðast nokkru sinni til beinnar atlögu:

Wijk aan Zee 2020; 9. umferð

Alireza Firouzja – Magnús Carlsen

Spænskur leikur

1.e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6 4. d3

Teflir til sigurs. Hann gat fengið upp þekktar en jafnteflislegar stöður Berlínarvarnarinnar sem hefjast með 4. 0-0 Rxe4 og nú 5. d4 eða 5. He1.

4…. d6 5. c3 a6 6. Ba4 Be7 7. 0-0 0-0 8. He1 He8 9. Rbd2 Bf8 10. h3 b5 11. Bc2 Bb7 12. d4 g6 13. a3 Rb8 14. d5 c6 15. c4 Rbd7 16. a4 Dc7 17. b3 Hec8 18. Ha2 bxc4 19. bxc4 a5

20. Rf1?!

Fyrsta ónákvæmni hvíts. Riddaranum var betur valinn staður á b1 og halda síðan til a3.

20…. Ba6 21. Re3 Rc5 22. Rd2 cxd5 23. cxd5 Hab8 24. Ba3 Dd8 25. Df3 h5!

Góður stöðulegur leikur sem hindrar –Rg4 og býr biskupnum athvarf á h6. 26. Haa1 Bh6 27. Hab1 Hxb1 28. Hxb1 Kg7 29. Ref1 h4 30. Re3 Bf4

Það er eins og Magnús nái að egna Firouzsja með þessum leik.

31. Ref1 Dc7 32. g3 hxg3 33. fxg3 Bh6 34. h4 Dd7!

Það er aðeins svartur sem hagnast á opnun stöðunnar. Peðið á a4 er að falla, g4-reiturinn veikur og svörtu biskuparnir skjóta geislum sínum í allar áttir.

35. Kg2 Rxa4 36. Bxa4 Dxa4 37. Bxd6 Dd4! 38. Df2

Það var ekkert betra í boði.

38…. Dxf2+ 39. Kxf2 Bxf1!

– og hvítur gafst upp. Svartur vinnur mann hverju svo sem hvítur leikur.

Magnús og Caruana unnu báðir í 10. umferð og áður en lokaspretturinn hófst í gær var staðan þessi: 1. Caruana 7 v. 2. Magnús Carlsen 6½ v. 3.-4. Van Foreest og So 6 v. 5.-6. Firouzja og Duda 5½ v. 7.-8. Giri og Dubov 5 v. 9.-11. Anand, Xiong og Artemiev 4½ v. 12.-13. Vitiugov og Yu 3½ v. 14. Kovalev 3 v.

Sigurbjörn og Hjörvar efstir

Sigurbjörn Björnsson vann Guðmund Kjartansson í fimmtu umferð Skákþings Reykjavíkur, vann einnig sl. miðvikudag og er einn efstur þegar þrjár umferðir eru eftir með fullt hús vinninga, sex vinninga. Guðmundur Kjartansson og Vignir Vatnar Stefásson koma næstir með fimm vinninga.

Hjörvar Steinn Grétarsson er efstur með þrjá vinninga af þremur í A-flokki MótX-mótsins. Ingvar Þ. Jóhannesson kemur næstur með 2½ vinning.

Í B-riðli eru átta skákmenn í efsta sæti með 2½ vinning hver.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -