Nú þegar keppnir af ýmsu tagi liggja niðri á hverju byggðu bóli er ekki laust við að gæti fortíðarþrár í skrifum þeirra sem fjalla um keppnisgreinar. Skákin hefur ekki farið varhluta af því þó svo að mörg mót farið fram á netinu t.d. í mót nr. 2 í syrpu sem Magnús Carlsen stendur fyrir.

Víða má rekast á umfjöllun um löngu liðin skákmót og er hún þá oftast sett fram eins og að tiltekið mót standi yfir akkúrat þessa dagana. Dæmi um þetta fann ég á vefsíðu Chessbase um stórmótið í New York 1924 og fyrirsögnin var:

Lasker eykur forystu sína eða: Capablanca sannfærandi – Lasker heppinn .

Þetta var raunar merkilegt skákmót sem fór fram þarna í heimsborginni fyrir næstum 100 árum og gat af sér fyrstu forsíðumynd Time af skákmeistara. Hana prýddi kúbverski heimsmeistarinn og kvennaljóminn Jose Raoul Capablanca.

Á áðurnefndri vefsíðu er Bobby Fischer vinsælastur í þessari tegund umfjöllunar. Rakin hafa verið nokkur mót þar sem hann var meðal þátttakenda árið 1970 og áskorendakeppnin sem hófst ári síðar fær svipaða meðferð. Sérfræðingi, sem var kallaður var til, tókst að sanna með aðstoð öflugra forrita að staða hans í fjórðu einvígisskákinni við Taimanov árið 1971 hafi verið unnin eftir allt saman en Taimanov þótti hafa varist illa og að Tigran Petrosjan hafi getað haldið jafntefli í sjöttu skákinni í einvíginu við Fischer sem fram fór nokkrum mánuðum síðar, en til þess þurfti hann að hitta á biðleik sem var samt einhvern veginn alveg út úr karakter Armenans.

Úr skáksögu okkar má líka rifja upp marga merkis viðburði. Í sumar verða t.d. 70 ár liðin frá því að íslenskir skákmenn unnu alla flokka Norðurlandamótsins sem fram fór í nýreistu Þjóðminjasafni. Baldur Möller varði titilinn frá 1948, Friðrik Ólafsson 15 ára vann meistaraflokk og Þórir Ólafsson, Birgir Sigurðsson og Ólafur Einarsson unnu riðla 1. flokks.

Fyrir lokaumferð mótsins hafði Baldur naumt forskot í landsliðsflokki og átti að tefla við helsta keppinaut sinn um sigurinn, Norðmanninn Aage Vestöl, sem var ½ vinningi á eftir og varð að vinna. Mögnuð viðureign og vel tefld. Fyrirsögn Morgunblaðsins þann 10. ágúst árið 1950 var:

Biðskák hjá Vestöl og Baldri Möller í gær .

Biðstaðan var þessi:

Skákþing Norðurlanda 1950; 9. umferð:

Aage Vestöl – Baldur Möller

Það hallar greinilega á hvítan. Biðleikurinn var:

41. e6 d2 42. Hf1 Ke5 43. Ke2 Kf6 44. Hf4 Hd6 45. Kd1 Hd5 46. Hf3 He5 47. Hf1 a6 48. Hg1 Kxf5 49. a4 bxa3

 

 

50. Hf1+?

Í skýringum í Skákritinu var því haldið fram að hvítur gæti haldið jafntefli með 50. Hg5+ Kxe6 51. Hg6+ Kd5 52. Hd6+! Hrókurinn eltir kónginn, og ef hann er drepinn er hvítur patt. En ungur maður, Freysteinn Þorbergsson, hafði sitthvað við þetta athuga. Hann sendi Skákritinu bréf og þar stóð m.a.: Eftir 49. leik svarts telur skýringarhöfundur, að hvítur geti náð jafntefli með 50. Hg5+ Kxe6 51. Hg6+ Kd5 52. Hd6+ o.s.frv. En eftir 52. … Ke4 53. Hd4+ Ke3 54. Hd3+ Kf4 55. Hf3+ Ke4 56. Hf4+ Ke3! (til þess að fá hrókinn á 3. reitalínuna) 57. Hf3+ Kd4 58. Hd3+ Kc5 59. Hxc3 Kb4 vinnur svartur auðveldlega.

50. … Kg4 51. Hg1+ Kh3

– Hvítur gafst upp og Baldur Möller var Norðurlandameistari öðru sinni.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 23. maí 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -