Sigurvegarar Kristján Dagur Jónsson varð Íslandsmeistari í skólaskák á dögunum. Benedikt Þórisson t.h. varð í 2. sæti. — Morgunblaðið/SÍ

Greinarhöfundur reyndist ekki spámaður góður í síðasta pistli sem að hluta fjallaði um annan hluta mótaraðar sem gengur undir nafninu Lindores Abbey rapid challenge en klaustrið skoska sem ræður nafngiftinni heyrir þó sögunni til. Nokkrir framtakssamir menn reistu brugghús á rústum þess, hófu framleiðslu á þjóðardrykknum og hafa kostað nokkru til kynningarmála, haldið skákmót og fengið til liðs við sig norska heimsmeistarann. Móti nr. 2 í mótaröðinni lauk sl. miðvikudag og sigurvegarinn varð Rússinn Daniil Dubov.

Eins og kom fram í síðasta pistli var þar komið sögu að Magnús Carlsen var búinn að vinna þrjár fyrstu skákirnar í einvíginu við Hikaru Nakamura og þar sem bandaríski stórmeistarinn hafði ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum við þann norska taldi greinarhöfundur aðeins formsatriði að Magnús lyki einvíginu með sigri. En keppnisfyrirkomulagið snerist ekki bara um vinninga heldur einnig óvenjulega keppnisskilmála, tvö fjögurra skáka einvígi og stig í boði fyrir sigur í hvoru og væri jafnt, 1:1, skyldi þriðja fjögurra skáka einvígið fara fram. Magnús vann fyrsta einvígið 3:0 og virtist ætla að vinna fyrstu skákina í öðru einvíginu en fataðist þá flugið, Nakamura vann og marði sigur, 2½:1½. Því þurfti að útkljá málin í úrslitaeinvígi sem Nakamura vann aftur 2½ : 1½. Hann komst því í úrslit þó hann hefði fengið færri vinninga samanlagt.

Í lokaeinvíginu mætti Bandaríkjamaðurinn Rússanum Daniil Dubov sem þá hafði slegið Liren Ding út.

Í fyrstu hrinu úrslitanna byrjaði Nakamura á tveim sigrum og vann síðan 2½:1½. Í næstu hrinu snerist dæmið við og Dubov vann 2½:1½ og jafnaði. Á ýmsu gekk í þriðja einvígi. Dubov vann fyrst, Nakamura jafnaði strax, þá jafntefli en svo veiddi Dubov Nakamura í lúmska gildru í byrjun tafls tólftu skákar. Kannski er ný stjarna skákarinnar komin fram:

Lindores Abbey 2010; 12. skák:

Daniil Dubov – Hikaru Nakamura

Kóngspeðsleikur

1. e4 e5 2. Rc3 Rc6 3. g3 Bc5 4. Bg2 Rf6 5. Rge2 d6 6. d3

Leikaðferð hvíts hefur aldrei verið vinsæl en sást stundum hjá Spasskí.

6…. a6 7. 0-0 Be6 8. h3 h6 9. Kh2 d5 10. exd5 Rxd5 11. f4 exf4

12. Bxd5!

Það sem merkilegt við þennan leik er að svartur getur hirt peðið að því er virðist fyrir ekki neitt með 12…. fxg3+. En eftir 13. Rxg3 Bxd5 kemur 14. Dh5! Re7 15. Rxd5 Dxd5 16. Dxd5 Rxd5 17. Hf5! og svartur kemst ekki hjá því að tapa manni, t.d. 17…. 0-0-0 18. c4. Sennilega var þetta samt besti kosturinn því að eftir 18…. Rb4 19. Hxc5 Rxd3 er staðan alls ekki vonlaus.

12…. Bxd5 13. Rxf4 Re7 14. Dh5!

Óþægilegur hnykkur því að 14…. g6 er einfaldlega svarað með 15. De5 og vinnur.

14…. c6 15. Rcxd5 cxd5 16. Re6!

Leggur stöðu svarts í rúst.

16. … Dd6 17. Rxg7 Kd7 18. Hxf7 Haf8 19. Bf4 Hxf7 20. Bxd6 Hf2 21. Kh1 Bxd6 22. He1 Hhf8 23. Dg4 Kc6 24. Re6 H8f6 25. Rd4 Kb6 26. He2 Hf1 27. Kg2

Þá er hvítur búinn að tryggja kóngsstöðuna og eftirleikurinn er auðveldur.

27…. Rc6 28. Rxc6 bxc6 29. c3 H1f5 30. b4 Kb7 31. Dg7 Hf7 32. Dxh6 Bc7 33. De3 Bb6 34. d4 Bc7 35. h4 a5 36. a3 a4 37. Dd3 Hf1 38. b5 H1f6 39. bxc6+ Kxc6 40. Da6+ Bb6 41. Dxa4+ Kb7 42. De8 Hf8 43. He7+ Bc7 44. Db5+ Hb6 45. Hxc7+

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 6. júní 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -