Verðlaunahafar á menningarskákmótinu. Mynd: Arnar Ingi Njarðarson.

Menningarfélagið Miðbæjarskák færði svo sannarlega út kvíarnar í mótahaldi með því að halda skákmót á Akureyri ásamt SA með svipuðu sniði og hin frægu Miðbæjarmót sem félagið hefur haldið í Reykjavík.

Miðbæjarskákarforkólfar: Gauti Páll og Elvar Örn spá í spilin. Mynd: Þórður Grímsson.

Laugardaginn 11. júlí var haldið sterkt og skemmtilegt skákmót í Listasafni Akureyrar, sem staðsett er í Gilinu í bænum. Skákmenn mættu brattir til leiks og létu ekki akureysku brekkuna á sig fá sem þurfti að klífa til að komast á skákstað, jú eða renna niður. Tefldar voru 11 umferðir með tímamörkunum 3+2 og gekk mótahaldið hratt og örugglega fyrir sig. Mættir voru til leiks sterkir skákmenn frá Akureyri, skákmenn að sunnan á ferð og flugi um norðurland, þar af fjöldi skákkvenna og Miðbæjarskákmennirnir knáu. Allir áttu þeir svo sameiginlegt að anda að sér listinni að aflokinni taflmennsku og meðan á henni stóð. 

Verðlaunahafar í kvennaflokki. Mynd: AIN

Í fyrsta sæti í mótinu var stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson sem gerði sér lítið fyrir og vann mótið með fullu húsi, 11 vinninga af 11 mögulegum. Græðir hann 34 hraðskákstig fyrir árangurinn. Annar varð Fide meistarinn Dagur Ragnarsson með 10 vinninga og 41 stigs gróða og sá þriðji varð Fide meistarinn Rúnar Sigurpálsson með 8.5 vinning og 21 stig í plús. Með átta vinninga varð svo alþjóðlegi meistarinn Davíð Kjartansson en þessir fjórir voru í nokkrum sérflokki enda voru næstu menn á eftir þeim með 6 vinninga.

Skák er engin leikur – heldur dauðans alvara Mynd: AIN

Einn þeirra var huldumaðurinn sem ritar þennan texta, sem kýs að að koma ekki fram undir nafni, enda algjör fauti. Efstu skákkonurnar voru þær Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Guðlaug Þorsteinsdóttir með sex vinninga og næst á eftir þeim var Tinna Kristín Finnbogadóttir með 5.5 vinning. Ágætis gestir mættu á skákstað og urðu vitni að herlegheitunum, meðal annars stórmeistarinn Helgi Ólafsson sem hvatti menn til dáða. Elvar Örn Hjaltason frá Miðbæjarskák sá að mestu um skákstjórn en lítið sem ekkert var um ágreiningsmál, enda mættu menn á mótið til þess að tefla og hafa gaman. Úrslit mótsins má nálgast á chess-results

Teflt við glæsilegar aðstæður. Mynd: ÞG.

Omnom styrkti mótahald Miðbæjarskákar á ný með súkkulaði sem veitt voru í verðlaun og nartað var í með kaffinu á meðan taflmennsku stóð. Skáksambandið styrkti aukinheldur mótahaldið en veitt voru peningaverðlaun fyrir efstu sætin þrjú og kvennaverðlaun. 

Dagur og Áskell tefldu með derhúfur. Mynd: AIN

Í hádeginu sunnudaginn 12. júlí mættu skákmenn á ný eldhressir og tefldu nú á aðeins hægara tempói, 4+2. Formaður Skákfélags Akureyrar, Áskell Örn Kárason, sá um mótahaldið en teflt var í húsakynnum SA. 17 skákmenn mættu til leiks að þessu sinni og tefldar voru sjö umferðir, stutt mót enda margir þáttakendur á ferðalagi þennan daginn. Helgi Áss vann enn á ný, nú með sex vinninga af sjö og hvorki fleiri né færri en fjórir skákmenn voru svo næstir í röðinni með fimm vinninga; Dagur Ragnarsson, Rúnar Sigurpálsson, Jón Kristinn Þorgeirsson og Davíð Kjartansson. Þess má einnig geta að Elvar Örn átti góða spretti og vann bæði Jón Kristinn og Stefán Bergsson, mun stigahærri menn. Úrslit mótsins eru einnig aðgengileg á chess-results en þess má geta að seinna mótið var ekki reiknað til stiga. 

Mikil einbeiting í skákheimilinu. Mynd: AIN.

Menningarfélagið Miðbæjarskák þakkar Skákfélagi Akureyrar og Listasafni Akureyrar fyrir virkilega ánægjulegt samstarf en allir hlutaðeigandi hafa sýnt því áhuga að endurtaka leikinn að ári. Skemmtum okkur innanlands í sumar og höfum skákborðið með í handfarangri! 

- Auglýsing -