Afar fróðleg og forvitnileg frásögn úr innsta hring af hinum sögufræga heimsviðburði sem beðið hefur verið eftir í nærri hálfa öld

Út er komin saga einvígisins sögufræga frá hendi mannsins bak við tjöldin, sem lengi hefur verið beðið eftir, þar sem hulunni er svift af hádramatískri atburðarás heimsmeistaraeinvígisins í skák 1972 milli Boris Spasskys og Bobby Fischers.

Í þessari spennuþrungnu bók greinir Guðmundur G. Þórarinsson, forseti Skáksambands Íslands og formaður skipulagsnefndar einvígisins á sinni tíð, loks frá fyrstu hendi frá hinum magnaða aðdraganda þess og sviftir hulunni af átökunum milli keppenda og annarra aðila á meðan á því stóð, þar sem oft mátti litlu muna að upp úr öllu slitnaði. Jafnframt rekur hann þróun skáklistarinnar, sögu heimsmeistarakeppninnar og helstu meistara frá upphafi. Ennfremur gerir höfundur upp hinn einstæða efttirleik einvígisins, þar sem Spassky flúði sitt heimaland og Fischer líka og fékk loks hæli hér á landi, í óþökk Bandaríkjanna, sem eftirlýstur maður.

„Raunveruleikinn hefur ekki burði til að endurtaka þær mögnuðu aðstæður sem umluktu einvígið; spennan milli stórveldanna, ótrúlegur áhugi umheimsins og hinir ólíku keppendur; herramaðurinn Boris Spassky, þrautþjálfaður liðsmaður sovéska skákskólans gegn ólíkindatólinu Bobby Fischer, einfara og uppreisnarmanni. Skákeinvígi allra tíma verður aldrei endurtekið.“ segir á baksíðu bókarinnar.

Mikið hefur áður verið fjallað um þetta sögulega einvígi, sem valið hefur verið í hóp merkilegustu viðburða síðustu aldar. Skrifaðar hafa verið yfir 150 bækur um það auk kvikmynda, fjölda sjónvarps- og útvarpsþátta og óteljandi blaða og tímaritsgreina. Þessi nýja bók Guðmundar sker sig alveg úr enda skrifuð frá allt öðrum sjónarhóli og úr hringiðu atburðanna. Hún er mikill fengur fyrir alla skákunnendur og aðdáendur sögulegs fróðleiks.

Bókin sem er í fallegu broti og ríkulega myndskreytt fæst nú í öllum betri bókabúðum.                                                                                                                                            ESE

- Auglýsing -