Spenna Frakkinn Vachier-Lagrave vann Nepo í fyrri umferð áskorendamótsins. Þeir eru efstir fyrir seinni hlutann. — Morgunblaðið/Heimasíða FIDE.

Í vikunni barst tilkynning frá FIDE þess efnis að áskorendamótinu, sem hálfnað var, yrði ekki haldið áfram hinn 1. nóvember nk., eins og stefnt hafði verið að, heldur frestað fram á vor. Um svipað leyti barst tilkynning um að skákhátíðinni í London yrði einnig frestað og Gíbraltarmótinu, sem hefst yfirleitt í lok janúar, hefur verið aflýst. Þannig er ástandið um heim allan en vonandi rofar til fljótlega. Staðan í áskorendamótinu kallar á upprifjun. Eftir fyrri helminginn voru efstir Rússinn Jan Nepomniachtchi og Frakkinn Vachier-Lagrave með 4½ vinning af sjö mögulegum, í 3.-6. sæti komu Caruana, Giri, Wang Hao og Grischuk með 3½ vinning og í 7.-8. sæti Alekseenko og Liren Ding með 2½ vinning. Ljóst er að allir keppendur eiga einhverja möguleika á sigri í mótinu. Um daginn hótaði Kínverjinn Wang Hao að hætta keppni eftir stirð samskipti við Dvorkovich, forseta FIDE. Sú hótun virðist hafa gengið til baka.

Víkur þá sögunni að Altibox-mótinu í Noregi sem lauk um síðustu helgi. Fyrir síðustu umferð lá fyrir að Magnús Carlsen myndi vinna mótið en í lokaskákinni gegn Levon Aronjan hélt hann snemma tafls út á brautir sem allir armenskir skákmenn þekkja eftir fræga sigurskák Tigrans Petrosjans gegn Búlgaranum Bobotsov á Ólympíumótinu í Lugano 1968. Upp kom flókið hróksendatafl og þar steig sá norski feilspor eitt og tapaði. Ekki dugði það Aronjan til að ná 2. sæti. Það kom í hlut Alireza Firouzja sem vann Pólverjann Duda í skák sem fær aðdáendur vængtafla til að kætast mjög. Samkvæmt skilgreiningu sem ég heyrði eitt sinn þá er Alireza Firouzja eini skákmaðurinn sem Magnúsi Carlsen stafar hætta af nú um stundir og úrslit áskorendamótsins breyta varla miklu þar um. Ástæðan er sú, að hann er í ákveðnum skilningi „hrár“ og „nýr“, sem mun vera skilyrði þess að nokkur geti orðið heimsmeistari, að mati serbneska stórmeistarans Ljubojevic. Fannst mér það merkileg speki:

Altibox-mótið 2020; 10. umferð:

Alireza Firouzja – Jan-Krzystof Duda

Grünfeldsvörn

1. Rf3 d5 2. g3 g6 3. Bg2 Bg7

4. d4 Rf6 5. 0-0 0-0 6. c4 c6 7. b3 dxc4 8. bxc4 c5

Þekkt leikbragð sem oft hefur reynst erfitt að tefla gegn vegna staka peðsins á c4.

9. Bb2 cxd4 10. Rxd4 Db6 11. Dc1 Bd7 12. Rd2 Rc6 13. Rc2 Hac8 14. Bc3 Da6 15. Db2 Rh5?!

Svartur hefði sennilega átt að sleppa því að skipta upp á svartreita biskupunum.

16. Bxg7 Rxg7 17. Re3 Be6 18. Rd5 Hfe8 19. Hfc1 Ra5 20. e3!

Hnitmiðaður leikur sem lætur þó ekki mikið yfir sér en leiðir í ljós að þrýstingur svarts á c4-peðið skilar engu. Þannig dugar ekki að leika 20. … Rxc4 vegna 21. Rxc4 Hxc4 22. Rc7! og vinnur skiptamun.

20. … Rf5 21. e4 Rg7 22. Da3 Rc6 23. Dxa6 bxa6 24. f4!

Þenur út áhrifasvæði sitt. Leikáætlun hvíts er tiltölulega einföld.

24. … Kf8 25. Kf2 Hed8 26. Hab1 Re8 27. Ke3 f6 28. a3 Bf7 29. Bh3 e6 30. Rb4 a5 31. Rxc6 Hxc6 32. c5!

Riddarinn er á leið til b3. Ekki er 32. … Hdc8 björgulegur leikur en framhaldið gæti þá orðið 33. Rb3 a4 34. Rd4 Hxc5 35. Hxc5 Hxc5 36. Rxe6+ Bxe6 37. Bxe6 o.s.frv.

32. … Rc7 33. Bf1 e5 34. fxe5 fxe5 35. Rf3 Be8

36. Hb7!

Bætir stöðuna áður en hann hirðir e5-peðið.

36. … Re6 37. Hxa7 Rxc5 38. Rxe5 Hf6 39. Rg4

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 24. október 2020.

- Auglýsing -