Skáksamband Íslands ætlar að standa fyrir mótasyrpu á miðvikudögum (Mögnuðum miðvikudögum) út nóvember hið minnsta og lengur ef talin er þörf á. Mótasyrpan verður haldin á Tornelo-netþjóninum sem hefur heldur betur slegið í gegn fyrir stærri skákviðburði á netinu eins og EM og HM ungmenna í netskák. Gera má ráð fyrir að stærri íslenskir netviðburðir færist þangað í framtíðinni.

Fyrsta mótið fer fram miðvikudaginn 18. nóvember og hefst kl. 20. Fyrsta mótið verður með óvenjulegu fyrirkomulagi. Allar skákir hefjast með drottningarbragði (Queen’s Gambit), þ.e. eftir 1. d4 d5 2. c4 og svartur á leik!

Ekki tókst að halda upphitunarmót í gær eins og stefnt var vegna tæknilegra vandamála. Eftir skoðun hjá Tornelo kom í ljós að vandamálið var að að Tornelo-þjóninn gerði ekki ráð fyrir að svartur gæti átt fyrsta leikinn! Ef ekki tekst að leysa það fyrir mótið í kvöld verður upphafsstaðan eftir 1. d4 d5 og hvítur þarf að hefja skákina með 2. c4.

Tornelo-vefurinn er eilítið öðruvísi en hefðbundnir skákvefir. Reynt er að líkja meira eftir hefðbundinni skák og má kalla mótið blöndu raunskákar og netskákar (blendingskák – e. hybrid chess). Má þar nefna að skákstjóri setur umferðir í gang og getur stöðvað skákir ef þörf er á, unnt er að kalla á skákstjóra, ekki er dæmt sjálfkrafa jafntefli ef þráteflt er heldur þarf að krefjast þess.  Stærsti munurinn er sá að ekki er hægt að leika fyrirfram (pre-move) heldur þarf að bíða eftir leik andstæðingsins.  Það að vera fljótur á músinni hefur því ekki sama gildi á Tornelo eins og t.d. á Chess.com.

Þegar menn skrá sig í fyrsta skipti þarf að fara í gegnum fremur einfalt innskráningarferli. Til að byrja þarf að stofna reikning. Skráning í mótið fer fram hér.

Skylda er að skrá sig með fullu og réttu nafni. Mælt er með því að þátttakendur skrái með fyrirvara – ekki rétt fyrir mót.

Verðlaun á þessa fyrsta móti verða sem hér segir

  1. 10.000
  2.   6.000
  3.   4.000

Engin þátttökugjöld. Tímamörk á fyrsta mótinu verða 3+2 og tefldar verða 9 umferðir.

Mikilvægt er að skrá til leiks stundvíslega.

Góða skemmtun!

- Auglýsing -