Elín Lára, Guðrún Fanney og Þórhildur. Mynd: GB

Íslandsmót ungmenna í tveimur yngstu aldursflokknum fór fram í dag. Annars vegar í flokki 8 ára og yngri og hins vegar í flokki 9-10 ára.. Fjórir Íslandsmeistarar voru krýndir – strákar og stelpur! Birkir Hallmundarson og Emilía Embla B. Berglindardóttir í flokki 8 ára og yngri og Guðrún Fanney Briem og Sigurður Páll Guðnýjarson í flokki 9-10 ára.

Keppnin heldur áfram á morgun en þá verður teflt í flokki 11-12 ára, 13-14 ára og 15 ára og fimm Íslandsmeistarar krýndir!

Beinar vefútsendignar slógu í gegn í dag og verða í boði á morgun.

Birkir og Emilía Embla Íslandsmeistarar

Dagurinn hófst með flokki átta ára yngri. Þar mættu 37 keppendur til leiks. Vegna sóttvarnareglna máttu hvorki aðstandendur né þjálfarar mæta. Keppendur stóðu sig eins og hetjur og létu það ekki áhrif á sig hafa.

Birkir Hallmundarson var í miklu stuði og fékk fullt hús og varð þar með Íslandsmeistari stráka í flokki átta ára og yngri. Tristan Fannar Jónsson varð annar og Jón Louie Thoroddsen þriðji.

Tristan, Birkir og Jón Louie. Mynd: GB

Emilía Embla B. Berglindardóttir varð efst stúlkna og varð þar með Íslandsmeistari stúlkna. Halldóra Jónsdóttir varð önnur og Sigrún Tara Sigurðardóttir þriðja.

Sigrún Tara, Emilía Embla og Halldóra. Mynd: GBHeildarúrslit má finna á Chess-Results.

Guðrún Fanney og Sigurður Páll Íslandsmeistarar

Stelpurnar stálu algjörlega senunni í flokki 9-10 ára. Þar urðu efstar og jafnar Guðrún Fanney Briem og Þórhildur Helgadóttir með 7 vinninga í átta skákum. Eftir oddastigaútreikning fékk Guðrún Fanney Íslandsmeistarinntitilinn en Þórhildur silfrið. Elín María Jónsdóttir varð í þriðja sæti.

Allt er grænt sem vel er grænt: Arnar Freyr, Sigurður Páll og Engilbert Viðar. Mynd: GB

Sigurður Páll Guðnýjarson varð efstur stráka og varð um leið íslandsmeistari stráka. Engilbert Viðar Eyþórsson varð annar og Arnar Freyr Orrason þriðji.

Heildarúrslit má finna á Chess-Results.

Morgundagurinn

Kl, 11:00 – 13:30 Íslandsmót ungmenna u12

Vegna sóttvarnarreglan hefur verið skipt í tvo jafna flokka en 34 keppendur eru skráðir til leiks. Sigurvegari hvors flokks, eftir oddastigaútreikning þurfi þess, tefla til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Þeir sem lenda í öðru sæti í hvorum flokki fá báðir bronsverðlaun.

Kl. 14:00 – 16:30 Íslandsmót ungmenna u14 og u15*

Flokkar 13 og 14 ára sem okkar flokkar 15 ára verða sameinaðir. Alls eru 17 skákmenn skráðir til leiks. 14 í flokki 13-14 ára og 3 í flokki 15 ára. Í eðlilegu árferði væri eldri flokkurinn fyrir 15-16 ára.

Mótið á Chess-Results

Því miður verða bara beinar vefútsendingar í a-riðli u-12 flokksins á morgun.

Starfsmenn dagsins þakka kærlega fyrir sig!

Róbert, Gunnar, Þorsteinn, Liss og Ulker. Mynd: GB
- Auglýsing -