Íslandsmeistarinn Helgi Ólafsson fremst til vinstri ásamt keppendum í landsliðsflokki 1964. Við hlið hans er Freysteinn Þorbergsson og þá Jón Kristinsson. Önnur röð f.v. : Halldór Jónsson, Þórður Þórðarson, Jónas Þorvaldsson, Magnús Gunnarsson, Björn Þorsteinsson og Trausti Björnsson. Aftasta röð f.v.: Hilmar Viggósson, Bragi Kristjánsson og Gísli Pétursson. — Ljósmynd/Saga SÍ

Greinarhöfundur á tvær bernskuminningar tengdar skák og árinu 1964. Sú fyrri tengist myndasyrpu Óla K. Magnússonar á baksíðu Morgunblaðsins um mánaðamótin janúar-febrúar. Þar var sagt frá einni viðureign Tals á fyrsta Reykjavíkurskákmótinu. Nokkrum vikum síðar vakti leikfélagi minn athygli á því að alnafni minn hefði orðið Íslandslandsmeistari í skák. Hann hét fullu nafni Helgi Sigurjón Ólafsson en millinafnið var nær óþekkt meðal skákmanna.

Eitt helsta skákafrek þessa ágæta manns var rifjað upp þegar hann féll frá 31. ágúst sl. Í byrjun apríl 1964 greindu fjölmiðlar frá því að tvítugur piltur úr Leirunni í Gerðahreppi á Suðurnesjum hefði orðið Íslandsmeistari í skák og skotið aftur fyrir sig mörgum af bestu skákmönnum þjóðarinnar. Bragi Kristjánsson, sem var meðal þátttakenda, sagði mér að sigur hans hefði verið verskuldaður. Helgi hlaut átta vinninga af ellefu mögulegum. Í síðustu umferð vann hann Jón Kristinsson en Björn Þorsteinsson, sem þá var með ½ vinnings forskot, tapaði fyrir Jónasi Þorvaldssyni. Þetta voru einhver óvæntustu úrslit sem um gat í sögu Íslandsmótsins. En svo skyndilega sem Helgi braust fram á sjónarsviðið hvarf hann jafn skjótt. Hann tók ekki sæti í ólympíuliði Íslands á Ólympíumótinu í Tel Aviv um haustið, var með á Íslandsþinginu ári síðar en gekk ekki vel. Helgi settist að í Hólmavík og fluttist síðar til Ísafjarðar. Hann var lærður prentari og lét mikið til sín taka í verkalýðsmálum, var formaður Verkalýðsfélags Hólmavíkur, um skeið, síðar starfsmaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga og varaformaður þess.

Eftir að Íslandsmót skákfélaga hóf göngu sína fyrir 46 árum sást aftur til Helga við skákborðið með Taflfélagi Hólmavíkur og þar tefldi hann við hlið annars fyrrverandi Íslandsmeistara, Jóns Kristinssonar, sem einnig bjó lengi í Hólmavík. Ég tefldi eina kappskák við nafna – á alþjóðamóti tímaritsins Skákar við Ísafjarðardjúp. Tólf keppendur, þar af þrír stórmeistarar, og tefldu allir við alla og Helgi, sem varð í 8. sæti, vann tvo af bestu skákmönnum Vestfirðinga, Guðmund Gíslason og Magnús Pálma Örnólfsson. Og hann tefldi einnig þessa glæsilegu sóknarskák:

Alþjóðamótið við Ísafjarðardjúp 1988; 9. umferð:

Helgi Ólafsson – Guðmundur Halldórsson

Frönsk vörn

1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rd2 Rf6 4. e5 Rfd7 5. Bd3 c5 6. c3 Rc6 7. Re2 Db6 8. Rf3 cxd4 9. cxd4 f6 10. exf6 Rxf6 11. 0-0 Bd6 12. He1 0-0 13. Rf4 Bd7 14. Rxe6 Hfe8 15. Bf5 Re7 16. Bh3 Bb4 17. He3 h6 18. Rf4

Fyrstu leikirnir voru þekktir og bera vott um staðgóða byrjanaþekkingu.

18. … Bxh3 19. Rxh3 Rf5 20. Hd3 g5

21. Rhxg5!?

Hvergi banginn. Hann gat einnig leikið 21. Hb3 eða 21. Re5 með góðri stöðu.

21. … hxg5 22. Bxg5 Re4 23. Bf4 Bd6 24. Re5?

Þessi leikur er ónákvæmur vegna 24. … Bxe5 25. Bxe5 Hxe5! En annað tækifæri fékk Guðmundur ekki.

24. … Dxb2 25. Dg4+ Rg7 26. Hf1 He6 27. Hb3 Dxd4 28. Hxb7 Be7

Hvítur hugðist svara 28. … Bxe5 með 29. Hxg7 Bxg7 30. Dxe6+ með flókinni stöðu.

29. Bh6! Hxh6 30. Hxe7 Hh7 31. Dg6 Hf8 32. He8!

 

 

 

 

 

Frábær leikur. Ef nú 32. … Hxe8 þá kemur 33. Df7+ Kh8 34. Rg6 mát. Svartur er varnarlaus.

32. … Rg5 33. Hxf8 Kxf8 34. Dxg5 Dh4 35. Rg6+

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 21. nóvember 2020.

- Auglýsing -