Netskák Íslendingar urðu í 3. sæti á NM ungmennasveita sem fram fór um síðustu helgi. Fimm stúlkur tefldu með íslensku sveitinni. — Morgunblaðið/Helgi Ólafsson

Einn mikilvægasti eiginleiki keppnismanns í hvaða grein sem er hlýtur alltaf að vera sá að gefast ekki upp þótt á móti blási.

Aronjan – Nepomniachtchi

Staðan kom upp í úrslitakeppni á Skilling open, enn einu netmótinu sem stendur yfir þessa dagana, og er hluti mótaraðar sem Magnús Carlsen skipuleggur. Átta efstu í tólf manna keppni héldu áfram í útsláttarkeppni með fremur flóknu fyrirkomulagi þar sem tefld eru þrjú fjögurra skáka einvígi. Armeníumaðurinn virtist í erfiðleikum vegna hótunar á f2. En hann lagði ekki árar í bát og bjargaði sér á snilldarlegan hátt:

43. Rg4! hxg4?

Sennilega hefur Nepo talið að hvítur ætti ekki meira en þráskák og jafntefli. betra var 43…. Kg7 og eftir 44. Df5 má leika 44…. Dc6 og staðan er jöfn.

44. Dxg4+ Kf6

Vitaskuld ekki 44…. Kg8 45. Dg8 mát.

45. e5+! Hxe5 46. Df4+

…og nú sá Nepo að 46…. Hf5 er svarað með 47. Dxh6 mát. Hann varð að leika 46…. Kg7 en eftir 47. Hxe5 var endataflið harla vonlaust og hann gaf skákina eftir 86 leiki.

Sú ákvörðun Nepos að taka riddarann strax afhjúpar ákveðinn veikleika í fari hans sem gerir svo sem vart við sig hjá bestu skákmönnum – að leika fyrst og hugsa svo.

Aðrir sem komust áfram í útsláttarkeppnina voru Magnús Carlsen, Giri, Nakamura, Vachier-Lagrave, Radjabov og So. Vinsældir ítalska leiksins, sem nefndur er eftir skákmeisturum endurreisnartímans, vekur athygli. Þessi ágæta byrjun hefur komið upp 18 sinnum í mótinu. Þetta eru oft á tíðum snúnar og flóknar baráttuskákir og úrslitin velta oft á einum ónákvæmum leik:

Skilling open 2020; 1. umferð úrslita:

Jan Nepomniachtchi – Levon Aronjan

Ítalski leikurinn

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d3

Að leika 5. d4 strax er hættuleg leið kunni stjórnandi svarta liðsaflans ekki skil á ýmsum refilstigum þeirrar leikaðferðar.

5…. 0-0 6. 0-0 d6 7. h3 He8 8. Rbd2 Be6 9. b4 Bb6 10. a4 a6 11. Bxe6 Hxe6 12. Dc2 d5 13. Bb2 Rh5!?

Riddarinn stefnir til f4 eða jafnvel til g3 ef verkast vill. En hann gefur aðeins eftir á miðborðinu.

14. b5 Re7 15. c4 dxe4 16. Rxe4 c6?!

Það var erfitt að verja e5-peðið vegna hótunarinnar 17. c5 sem lokar af biskupinn. En 16…. Rf4 var betra því að 17. Rxe5 má svara með 17…. Rg6! og svartur á góða stöðu.

17. Rxe5

Enn betra var 17. bxa6 og 18. Bxe5 og biskupinn ver f4-reitinn.

17…. Rg6 18. d4 Rhf4 19. Rf3 Rh4 20. Rxh4 Dxh4 21. Rg3 Hae8 22. bxc6 bxc6 23. Bc3 h5 24. Hab1?

Hrekur biskupinn á stórhættulegan reit. Hann varð að bjóða hrókakaup með 24. Hfe1 og staðan er jöfn.

24…. Bc7 25. Hb7?

Skárra var 25. d5 þótt svarta sóknin sé stórhættuleg eftir 25…. Hg6.

25…. Rxh3+! 26. gxh3 Bxg3 27. d5 Dxh3 28. fxg3 He2!

– og hvítur gafst upp.

 

Fjölsótt Íslandsmót ungmenna fer fram um helgina

Það er að aðeins rofa til í skákmótahaldi hér á landi þó að enn takmarkist það við yngstu aldurhópana. Ef aðstæður leyfa fer Íslandsmót ungmenna undir 15 ára aldri fram um helgina í húsakynnum skákhreyfingarinnar í Faxafeni 12 í Reykjavík. Keppt verður í fjölmörgum aldursflokkum ungmenna. Vel yfir 100 krakkar hafa þegar skráð sig til leiks.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 28. nóvember 2020.

- Auglýsing -