Evrópuundanrásir HM ungmenna í netskák héldu áfram í dag, þriðjudag. Tefldar voru þrjár umferðir af sjö. Um er að ræða undankeppni sem aðeins Evrópubúar taka þátt í og þrír efstu í hverjum flokki fara í úrslit.  Teflft er á Tornelo vefnum á netinum og tímamörk eru 10+3.

Fyrsti keppnisdagur reyndist erfiður þar sem íslensku keppendurnir fengu mjög erfiða andstæðinga og aðeins komu fimm vinningar í hús. Gengið varð mun betra á þessum keppnisdegi og í fjórðu umferðinni komu 8 íslenskir punktar í hús!

Vinningarnir hefðu með góðu átt að verða fleiri, en röð af slæmum ákvarðanatökunum í seinustu umferðinni urðu til þess að margir vinningar skiptu um landamæri þar sem engin forsenda var í raun til þess miðað við stöður!

Rennum yfir íslensku keppendurnar og stöðu þeirra:

U10:

Jósef Omarsson náði sér í 1.5 vinning af 3 á keppnisdegi tvö. Jósef var að koma sér í góðar stöður og hefði í raun mátt fá fleiri vinninga en hann lék af sér í betri stöðu gegn Leonardo Zangrilli (1221). Fínir punktar komu inni í hinum skákunum og Jósef er efstur Íslendinga í þessum flokki með 1.5 vinning.

Sigurður Páll Guðnýjarson náði sér í sinn fyrsta vinning í þessum flokki. Hann lagði Ivan Horvat (1121) en sá réð ekki feitum hesti frá viðureignum sínum við íslensku strákana. Fínn skóli fyrir Sigurð Pál og hann bæti vonandi við á morgun í lokaumferðunum.

Birkir Hallmundarson átti ekki góðan dag og var seinheppinn í mörgum var sínum skákum. Hann mun vafalítið láta finna fyrir sér á lokadeginum. Birki hefur 1 vinning eins og Sigurður Páll.

Guðrún Fanney Briem og Þórhildur Helgadóttir náðu sér báðar í vinning í dag. Því miður mættust þær í fjórðu umferðinni og þar hafði Guðrún betur með brellu í Englund gambítnum. Þórhildur hafði í umferðinni áður unnið sína fyrstu skák gegn Sarah Sima Derlich (1127). Guðrún hefur 2 vinninga og Þórhildur 1 vinning.

 

U12:

Tómas Möller komst á gott flug með tveim sigrum í röð í lokaumferðum dagsins. Hann lagði Matthew McConnell (1125) og Ilja Milovic (1044).

Katrín María Jónsdóttir lagði andstæðing sinn í 5. umferðinni og allir Íslendingarnir því komnir á blað. Katrín hefur 1 vinning.

U14:

Benedikt Briem lagði Tormi Kull (1719) og gerði jafntefli við Aryan Munshi (1148). Benedikt hefði átt að gera betur í dag miðað við stig, tefldi niður fyrir sig í öllum skákunum. Benedikt hefur 1.5 vinning og vinnur báðar sínar skákir á morgun, lásuð það hér fyrst!

Gunnar Erik Guðmundsson lagði Andreas Pakkoutis (1125) í fjórðu umferðinni og fylgdi því eftir með góðum sigri á Peko Djurovic (2062) í þeirri fjórðu. Gunnar hefur 1.5 vinning.

Batel Goitom Haile lagði andstæðing sinn í fjórðu umferð að velli og tvöfaldaði því vinningana frá fyrsta keppnisdegi. Batel hefur 2 vinninga í þessum flokki.

Iðunn Helgadóttir fékk yfirsetu í fjórðu umferð og fékk svo einn stigahæsta keppandann, Dilyana Ivanova sem er WCM með 1743 stig. Iðunn varðist gríðarlega vel en lagði of mikið á stöðuna þegar líklegast var jafntefli í hendi með þráleik. Iðunn hefur verið að tefla mjög vel á köflum og vinningarnir skila sér vonandi í hús á morgun!

 

U16:

Kristján Dagur Jónsson Kristján er að fá 2000+ stiga menn í nánast hverri einustu umferð. Hann stóð í þeim vel flestum í dag og hefði átt að leggja Ivan Troselj (2016) að velli í lokaumferðinni en varð að gera sér jafntefli að góðu. Kristján hefur 1.5 vinning.

 

U18:

Vignir Vatnar Stefánsson var seinheppinn í báðum skákum sínum gegn 2400 stiga mönnum í dag. Í raun algjör klaufi í lokaumferðinni, skiptamun yfir en hleypti andstæðingnum í óþarfa mótspil sem kostaði skákina. Vignir hefur 2 vinninga og tekur reiðina út á andstæðingum morgundagsins!

Alexander Oliver Mai fékk hjásetu í fjórðu umferð en kom svo endurnærður í lokaumferðinni og tefldi fína skák og hefur því 2 vinninga.

 

Mótið lýkur á morgun og hefst taflmennska klukkan 15:00. Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson munu sjá um skýringar.

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -