Íslenski hópurinn sem tók þátt í undankeppni HM ungmenna í atskák. — Morgunblaðið/SÍ

Í dag lauk Evrópuundanrásum HM ungmenna í netskák en síðustu tvær umferðir af sjö voru tefldar í dag.  Teflt var á Tornelo vefnum á netinu og tímamörk voru 10+3.

Stígandinn í íslensku keppendunum var fínn og uppskeran á lokadeginum sú besta til þessa!

 

Rennum yfir árangur íslensku keppendanna í dag og lokaniðurstöðu þeirra.

U10:

Jósef Omarsson endaði með 2.5 vinning ef sigur í lokaumferðinni. Byrjanir Jósefs eru orðnar nokkuð traustar og er hann yfirleitt vel inni í öllum skákunum. Mikið efni hér á ferðinni. Hann var efstur Íslendingana í þessum flokki í 58. sæti.

Birkir Hallmundarson hefði átt að fá fleiri vinninga miðað við taflmennsku en hann endaði með tvo vinninga. Skák hans í lokaumferðinni var mjög vel útfærð þar sem hann sýndi stöðuskilning og þroska framar árum og núverandi stigafjölda! Birkir hafnaði í 63. sæti. Lokaskák Birkis er hér:

Sigurður Páll Guðnýjarson náði sér ekki á strik í dag og endaði með 1 vinning og hafnaði í 70. sæti í þessum flokki.

Guðrún Fanney Briem var stjarna dagsins og vann báðar sínar skákir og það í raun örugglega. Guðrún hlaut þar með 4 vinninga í skákunum 7 og var duglegust íslensku keppendanna í vinningasöfnun ásamt Vigni. Þessi lokasprettur skilaði Guðrúnu í 23. sæti sem er glæsilegur árangur!

Guðrún mátaði andstæðing sinn snaggaralega í lokaumferðinni:

Þórhildur Helgadóttir vann aðra skák sína í dag og endaði með tvo vinninga. Hún endaði í 46. sæti í flokknum.

 

U12:

Tómas Möller tefldi síðustu skák sína eins og herforingi og skilaði þriðja vinningi sínum í hús. Hann endaði í 52. sæti í U12 flokknum.

Katrín María Jónsdóttir komst ekki á flug í lokaumferðunum og endaði með 1 vinning og í 51. sæti.

U14:

Benedikt Briem náði í sína aðra vinningsskák í dag en hefur sjálfsagt viljað hafa þær fleiri. Benedikt tefldi niður fyrir sig í fimm umferðum eftir rosalega þétta byrjun gegn tveim FIDE meisturum og uppskeran hefði átt að vera meiri miðað við getu. Benedikt endar í 53. sæti í sínum flokki.

Gunnar Erik Guðmundsson hlaut einnig 2.5 vinning eftir sigur í lokaumferðinni. Hann endaði í 56. sæti stutt frá Benedikt.

Batel Goitom Haile fékk nokkuð þétta dagskrá á mótinu og tefldi við fjóra 1900+ stiga andstæðinga. Hún endaði með 3 vinninga og má vel við una í 36. sæti.

Iðunn Helgadóttir vann fyrri skákina í dag en var óheppinn í seinni skákinni þar sem hún stóð líklega betur en lenti í vandræðum með tímann, mögulega útaf netvandræðum. Tveir vinningar í hús þar en mjög jákvæð innlegg í reynslubankann góða. Hún hafnaði í 54. sæti.

 

U16:

Kristján Dagur Jónsson endaði með 1.5 vinning og í 58. sæti. Flokkurinn var mjög þéttur og nánast allir andstæðingar Kristján 2000+ stiga menn. Fínn skóli fyrir Kristján.

 

U18:

Vignir Vatnar Stefánsson kláraði lokadaginn vel með því að vinna báðar skákir sínar (eins og lofað var í pistli gærdagsins!). Vignir vann sterkan alþjóðlegan meistara í lokaumferðinni og endaði í 22. sæti með flesta vinninga Íslendingana ásamt Guðrúnu.

Alexander Oliver Mai náði sér ekki á strik og átti ekki sitt besta mót. Endaði með 2 vinninga og í 49. sæti

Lokaniðurstaðan í mótinu var að mestu þokkaleg. Kannski helst að okkar sterkustu keppendur hefðu viljað gera betur en lítið má útaf bregða í 7. umferða móti. Liðsstjóri liðsins hafði á orði að mikill stígandi hafi verið í taflmennskunni og jafnvel að krakkarnir hefðu margir hreinlega sýnt framfarir í miðju móti!

Ljóst er að mikilvægi svona móta er gríðarlegt upp á keppnisreynslu og að krakkarnir fái að bera sig saman við sterkustu keppendur álfunnar og sjá hvað má laga og hvað er gott. Andinn í hópnum var almennt mjög góður og ljóst að svona verkefni styðja samstarf og vináttu sem skiptir máli í svona hópum, sérstaklega þegar kemur að hópferðum.

 

Skýringar voru í boði í umsjón Ingvars Þórs Jóhannessonar og Björns Ívars Karlssonar.

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -