Leikslok Reshevsky búinn að gefa og Fischer spjallar við skákstjórann, belgíska greifann Alberic O'Kelly.

Fyrir 50 árum, nánar tiltekið laugardaginn 12. desember 1970 kl. 19, gekk Bobby Fischer inn í salinn til að tefla skák sína í 23. umferð millisvæðamótsins í Palma á Mallorca og lék enska leiknum, c2-c4. Lengri var hún ekki þessi síðasta kappskák Fischers á opinberu móti. Andstæðingur hans Oscar Panno mætti að vísu á skákstað en gaf skákina án þess að leika. Í því fólust mótmæli hans gegn því að þessari skák lokaumferðar skyldi seinkað um þrjár klukkustundir en aðrar skákir hófust kl. 16. Fischer tók þá hátíðlegan sabbatinn, hvíldardag gyðinga. Hann var 27 ára og hafði komist inn í millisvæðamótið með sérstakri samþykkt á þingi FIDE fyrr um haustið. Þetta var sjöunda sigurskák hans í röð og hann varð langefstur með 18½ vinning af 23 mögulegum en á eftir komu Larsen, Geller og Hübner með 15 vinninga. Í 5.-6. sæti urðu Taimanov og Uhlmann. Þessir komust í áskorendakeppnina.

Þrátt fyrir yfirburðina voru sovésku blöðin á því að Fischer hefði stundum teflt betur. Þegar mótið er skoðað í heild virðist þó flest hafa gengið upp hjá honum. Hann lagði talsvert upp úr því að koma andstæðingnum á óvart – en þó ekki alltaf. Og slagkrafturinn var mikill:

Millisvæðamótið í Palma 1970; 6. umferð:

Reshevsky – Fischer

Það var nú sjaldan mikill friður með þessum tveimur. Reshevsky í tímahraki lék síðast 28. Db5-d7 en Fischer svaraði með …

28. … Df4! 29. Kg1??

Hann varð að fara aftur til b5 með drottninguna.

29. … Dd4+ 30. Kh1 Df2!

– og Reshevsky lagði niður vopnin því að 31. Db5 er svarað með 31. … He1 o.s.frv.

Í bók Jans Timmans „The art of chess analysis“ kveður við þann tón að ódrepandi sigurvilji hafi verið helsti styrkleiki Fischers, þessi forherðing keppnismannsins að tefla jafnvel lakari stöðu til vinnings þó að jafntefli hafi verið í boði:

Millisvæðamótið í Palma 1970; 7. umferð:

Fischer – Matulovic

Svarta staðan er greinilega betri. Framhaldið varð …

28. Ke3 Bh6+ 29. Kd3 Bg7 30. Kc4!?

Sennilega hefði hann fengið jafntefli með því að endurtaka leiki, 28. Ke3, þó að svartur eigi góðan leik, 28. … f5! Eftir mikla baráttu lauk skákinni með jafntefli eftir 60 leiki.

Í þessu móti bryddaði Fischer upp á ýmsu: Aljékínsvörn, enski leikurinn og Larsens-byrjun sem Fischer notaði gegn þremur ungum skákmönnum þetta árið: Tukmakov, Ulf Anderson og brasilíska undrabarninu:

Millisvæðamótið í Palma 1970; 21. umferð:

Bobby Fischer – Henrique Costa Mecking

Larsens byrjun

1. b3 d5 2. Bb2 c5 3. Rf3?!

Ónákvæmni sem Fischer nýtti sér síðar gegn Petrosjan í einvígi þeirra 1971. Hann lék þá 3. … f6!

3. … Rc6 4. e3 Rf6 5. Bb5 Bd7 6. 0-0 e6 7. d3 Be7 8. Bxc6 Bxc6 9. Re5 Hc8 10. Rd2 0-0 11. f4 Rd7 12.Dg4 Rxe5 13. Bxe5 Bf6 14. Hf3 De7 15. Haf1 a5 16. Hg3 Bxe5?

Honum yfirsást 19. leikur hvíts. Betra var 16. … g6.

17. fxe5 f5 18. exf6 Hxf6

19.Dxg7+ Dxg7 20. Hxf6 Dxg3 21. hxg3

Hvítur hefur haft lítið peð upp úr krafsinu. Hinn tæknilegi þáttur upp frá þessu er framúrskarandi góður.

21. … He8 22. g4 a4 23. Rf3 axb3 24. axb3 Kg7 25. g5 e5 26. Rh4 Bd7 27. Hd6 Be6 28. Kf2 Kf7 29. Hb6 He7 30. e4 dxe4 31. dxe4 c4 32. b4 Bg4 33. Ke3 Hd7 34. g6+ Kf8 35. gxh7 Hxh7 36. Rg6+ Ke8 37. Rxe5 Bc8 38. Rxc4 Kd8 39. Rd6 Hg7 40. Kf2 Kc7 41. Rxc8 Kxc8 42. Hd6

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 19. desember 2020.

- Auglýsing -