Á málþingi Boris Spasskí í Landsbankanum veturinn 2006. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Ég hef verið aðlesa bók Guðmundar G. Þórarinssonar um einvígi Fischers og Spasskís sem Guðmundur kallar Einvígi allra tíma . Hann skýrir nafngiftina með því að benda á að þær aðstæður sem þá voru fyrir hendi munu aldrei koma aftur. Út frá þeim rökum er hægt að vera sammála Guðmundi um nafngiftina og bókin er mikilvæg heimild um einvígið, sem eins og allir vita lifir algerlega sjálfstæðu lífi og heldur t.d. upp á hálfrar aldar afmæli sitt á næsta ári.

Við lesturinn fór ég aftur að velta heimsmeistaranum Spasskí fyrir mér. Vanmetinn heimsmeistari að mati bosníska stórmeistarans Ivans Sokolovs og ég er sammála því. Hann var stöðvaður á leiðinni „út“ úr borðtennisherberginu af Lothar Schmid – og það var ekki hlutverk yfirdómarans.

Við hittum Spasskí nokkrir við upphaf HM í hraðskák og atskák í Berlín haustið 2015. Hann var bundinn við hjólastól eftir heilablóðfall árið 2010 en lék samt á als oddi. Stutt síðan hann sneri aftur til Rússlands; honum fannst sér haldið föngnum á heimi sínu í Grenoble. Með honum var kona sem hafði hjálpað til við „flóttann“ frá Frakklandi. Þótt ég vissi ekki nein deili á þessum „gagn-mannræningja“ Spasskís, eins og einn félaginn kallaði konuna í gamansömum tón, þá bauð hún af sér góðan þokka.

Hugurinn hvarflaði til þess tíma þegar Spasskí sat á sviði Laugardalshallar með þessa þungu krúnu og risaveldið á herðunum. Það voru sennilega fáir að velta fyrir sér lífshlaupi hans akkúrat þá. Fæddur 1937. Barn sem lifði af umsátur nasista um Leníngrad, 10 ára farinn að sjá fjölskyldu sinni farborða, stoltur afkomandi presta rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og hafði orð á því að hann vildi feta í þeirra fótspor. Opinskár umfram flesta aðra þegna; 19 ára gamall reif hann stólpakjaft í móttöku í sendiráði Sovétríkjanna í Brussel og mátti að sögn Jurís Averbakhs þakka fyrir að vera ekki kærður við heimkomuna. Þá var hann líka heimsmeistari unglinga og að einhverju leyti ósnertanlegur. Hann var sendur á sitt fyrsta stórmót utan landsteinanna 16 ára gamall og varð strax alþjóðlegur meistari. Og verðandi heimsmeistari, Vasilí Smyslov, fékk slíka meðferð að eftir skákina barst skeyti frá Moskvu og sovésku keppendurnir beðnir að halda friðinn hvor gegn öðrum:

Búkarest 1953; 1. umferð:

Boris Spasskí – Vasilí Smyslov

Nimzo-indversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. Bg5

Leníngrad-afbrigði Nimzo-indversku varnarinnar. Spasskí beitti því oft með góðum árangri.

4. … h6 5. Bh4 c5 6. d5 exd5 7. cxd5 d6 8. e3 Rbd7 9. Bb5 0-0 10. Rge2 Re5 11. 0-0 Rg6 12. Bg3 Rh5 13. Bd3 Rxg3 14. Rxg3 Re5 15. Be2 Bxc3?

Staðan var jöfn en hér missti Smyslov þráðinn.

16. bxc3 Dh4 17. f4 Rg4 18. Bxg4 Bxg4 19. Da4!

Nú þarf svartur að reikna með möguleikanum f4-f5.

19. … Bc8 20. e4 Dg4 21. Dc2 h5 22. Hf2 b5 23. e5 h4 24. Rf1 Bf5 25. Dd2 dxe5?!

Önnur ónákvæmni. Nú verða peð hvíts verulega ógnandi.

26. fxe5 Bg6 27. He1 h3

Andvana fædd hugmynd en svarta staðan var erfið.

28. d6! Be4 29. Re3 De6 30. Hf4 Bxg2

Ekki 30. … Dxe5 31. Rg4! og vinnur.

31. Rf5! Hfe8 32. He3! Had8

 

 

 

 

 

 

33. Rxg7!

Hver þrumuleikurinn rekur annan.

33. … Hxd6 34. Rxe6

– og Smyslov gafst upp, 34. … Hxd2 er svarað með 35. Hg3+ Kh7 36. Hh4 mát.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 9. janúar 2021.

- Auglýsing -