Stærsti sigurinn Vignir Vatnar Stefánsson vann alla helstu keppinauta sína á Skákþingi Reykjavíkur og varð einn efstur með 8 vinninga af 9. Hjörvar Steinn Grétarsson varð annar og Guðmundur Kjartansson varð í þriðja sæti. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Það er áreiðanlega ekki ofsagt þegar því er haldið fram að skáksaga 20. aldar hafi rekist utan í flesta stórviðburði aldarinnar sem leið. Lubomir Kavalek, sem féll frá á dögunum, gat vitnað um það. Hann fæddist 9. ágúst 1943; fimm mánuðum áður hafði annað barn verið í heiminn borið og átti eftir að velkjast um í sérkennilegum afkima kalda stríðsins: Bobby Fischer. Jafnaldrarnir áttu samvinnu á ýmsum tímum, ekki síst hér í Reykjavík sumarið 1972.

Kavalek og Hort voru frambærilegustu ungu skákmenn Tékka á sjöunda áratugnum. En leiðir skildi þegar Kavalek sat að tafli á skákmóti í Póllandi í ágúst 1968 og herir Varsjárbandalagsríkjanna réðust inn í Tékkóslóvakíu. Hann ákvað að snúa ekki aftur. Leiðin til frelsis var vörðuð nokkrum landamærahliðum og af frásögn hans af þeirri reisu má ætla að Kavalek hafi þekkt vel sitt heimafólk. Fyrir verðlaunafé birgði hann sig upp af vodkaflöskum og við hvert hlið bauð hann glundrið fyrir annan greiða. Hann settist að í V-Þýskalandi og þaðan lá síðan leiðin til Bandaríkjanna.

Kavalek kom til landsins meðan á einvígi Fischers og Spasskís stóð og sat með Bobby langt fram eftir nóttu yfir einhverri mögnuðustu biðskák sem um getur. Fyrr um kvöldið hafði Fischer rekið kvefaðan séra Lombardy út úr herbergi 470 með þeim orðum að hann hefði ekki efni á því að kvefast. Kavalek kvaðst upp frá því hafa tekið að sér hlutverk aðalaðstoðarmannsins, sem stangast raunar á við frásagnir Lombardys. Kavalek, sem var sigursæll á ferli sínum, eftirsóttur þjálfari, skipuleggjandi stórra skákviðburða og margverðlaunaður penni, sagði svo frá samvinnu sinni við Fischer við rannsóknir á biðstöðunni í New in chess:

Reykjavík 1972; 13. einvígisskák:

Boris Spasskí – Bobby Fischer

Staðan á borðinu var eins og jarðsprengjusvæði. Hvert skref varð að stíga með mikilli aðgætni. Við fylgdum leið sem virtist greiðfær. Að lokum kom upp hjá okkur staða þar sem hrókur svarts var lokaður af. Spasskí þurfti samt að kljást við fimm frípeð, en hann hélt kóngi svarts frá. „Hafðu engar áhyggjur, ég þvæli h-peðinu upp í borð og kóngurinn sleppur inn,“ sagði hann. Við höfðum rakið stöðuna áfram um 20 leiki frá biðstöðunni og það voru mörg hliðarafbrigði. Og ég tók eftir því að hann skrifaði ekkert hjá sér – lagði allar rannsóknirnar á minnið. Nóttin langa tók enda og Fischer mætti í Laugardalshöll 21 mínútu of seint.

42. Kg3

Biðleikur Spasskís.

42. … Ha3+ 43. c3 Ha8 44. Hh4 e5 45. Hh7+ Ke6 46. He7 Kd6 47. Hxe5 Hxc3+ 48. Kf2 Hc2+ 49. Ke1

49. … Kxd7 50. Hexd5+ Kc6 51. Hd6+ Kb7 52. Hd7+ Ka6 53. H7d2 Hxd2 54. Kxd2 b4 55. h4 Kb5 56. h5 c4 57. Ha1 gxh5 58. g6 h4 59. g7 h3 60. Be7 Hg8 61. Bf8 h2 62. Kc2 Kc6 63. Hd1 b3 64. Kc3

„Við höfðum gert ráð fyrir þessari stöðu,“ skrifaði Kavalek. Einhverjar vomur virtust á Fischer og hann gerði sér grein fyrir að það var engan vinning að hafa. Hann hugsaði og hugsaði. Eftir 45 mínútur lék hann loksins en þá var eins og einbeitni Spasskís slævðist.

64. … h1(D) 65. Hxh1 Kd5 66. Kb2 f4 67. Hd1 Ke4 68. Hc1 Kd3

69. Hd1+?

Tapleikurinn. Eftir 69. Hc3+! er staðan jafntefli.

69. … Ke2 70. Hc1 f3 71. Bc5 Hxg7 72. Hxc4 Hd7 73. He4 Kf1 74. Bd4 f2

– og Spasskí gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 13. febrúar 2021.

- Auglýsing -