Stúkan Skákþing Kópavogs hófst á fimmtudaginn með 37 keppendum. Hér eigast þær við Iðunn Helgadóttir (t.v.) og Ulker Gasanova.

Þrátt fyrir allt er skáklífið í landinu með miklum blóma um þessar mundir, mótin hafa verið fjölmörg og sveigjanleiki þeirra gefið nokkrum af virkustu skákmönnum landsins tækifæri til að taka þátt í fleiri en einu móti. Þannig hefur Helgi Áss Grétarsson verið meðal þátttakenda í þrem mótum og Guðmundur Kjartansson einnig. Sá síðarnefndi keppir að því að ná 2.500 elo-stigamarkinu til að hljóta útnefningu sem stórmeistari og þar sem hinn alþjóðlegi skákvettvangur er algerlega lokaður heldur hann sér í æfingu með taflmennsku víða. Þannig tekur hann þátt í Skákþingi Vestmannaeyja og þarf sennilega að vinna allar skákirnar til að hækka á stigum. Hann er með átta vinninga af átta mögulegum en á þó eftir að tefla við einn öflugasta Eyjamanninn, Sigurjón Þorkelsson. Vinni Guðmundur þá skák og aðrar tvær til viðbótar hlýtur hann 11 vinninga af 11 mögulegum og það hefur ekki gerst á þessum vettvangi síðan á skákþinginu 1973.

Helgi Áss tekur þátt í skákmóti öðlinga hjá TR og hefur unnið allar skákir sínar. Hann tapað óvænt fyrir Símoni Þórhallssyni á Brim-mótinu um helgina sem er hluti mótaraðar TR. Þar varð Davíð Kjartansson hlutskarpastur, hlaut 6½ vinning af sjö mögulegum en Símon Þórhallsson kom næstur með 5½ vinning. Sigur Davíðs stóð tæpt því að Vignir Vatnar Stefánsson, sem hefur verið sigursæll undanfarið, gat komist upp fyrir hann í lokaumferðinni. Önnur innihaldsrík úrslitaskák hjá Vigni á stuttum tíma, og hún var eins og sigurskákin gegn Hjörvari Steini á Skákþingi Reykjavíkur á dögunum, báðum keppendum til sóma:

Brim-mótaröðin 2021:

Vignir Vatnar Stefánsson – Davíð Kjartansson

Vínar- tafl

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. Rc3 dxc4 5. e3

Hvassast og best er 5. e4. það er sennilega ekki nokkur leið fyrir hvítan að fá betra tafl upp úr byrjuninni eftir þennan leik. Næstu leikir leiða það í ljós.

5. … a6 6. Bxc4 b5 7. Be2 Bb7 8. 0-0 Rbd7 9. a4 b4 10. Rb1 c5 11. b3 Be7 12. Bb2 0-0 13. Rbd2 Hc8 14. a5 Dc7 15. Rc4 Hfd8 16. Dd2 cxd4 17. Rxd4 Re4 18. Dc2 Re5 19. Dc1 Rxc4 20. Bxc4 Db8 21. De1 Bd6 22. h3 Hc5 23. f4 Hg5!?

– Sjá stöðumynd 1-

Hvað á þetta að fyrirstilla? Hróknum er leikið beint í dauðann en ekki dugar 24. fxg5 Bh2+ 25. Kh1 Rg3+ 26. Kxh2 Rxf1+ 27. Kg1 Dh2+ og 28. … Dxg2 mát.

24. Rf3 Hg6 25. g4

 

 

25. … Bxf4?!

Afar hæpin fórn. Davíð átti góðan leik, 25. … Rc3 sem hefði fært honum betri stöðu.

26. exf4 Dxf4 27. Re5 Dh6 28. Rxg6?!

Nákvæmast var var 32. h4! og sókn svarts rennur út í sandinn.

28. … Dxh3! 29. Dh4 De3+ 30. Hf2 Hd2

 

Gríðarlega áhugaverð staða. Hvítur leikur sennilega best 31. Bd5! með máthótun í borði og svartur verður að svara með 31. … Rg5! og miklar flækjur framundan.

31. Re7+ Kf8 32. Rd5?

Tapleikurinn. Enn var best að leika biskupinum til d5.

32. … Dxf2+ 33. Dxf2 Rxf2 34. Rxb4 Hxb2 35. Bxa6 Rh3+ 36. Kf1 Bf3 37. Ke1?!

Svartur hefur unnið manninn til baka og á góða sigurmöguleika en hér varð hvítur að leika 37. Bc4!

37. … Hxb3 38. Rd3 Ke7 39. Kd2 Rg5 40. Bc4 Hb8 41. Ke3 Ba8 42. a6 Re4 43. Kd4 Rd6 44. Ha4 Bc6 45. Ha5 Ba8 46. g5 h6 47. gxh6 gxh6 48. Ba2 Rf5+ 49. Ke5 h5 50. a7 Hd8 51. Rc5 f6+ 52. Kf4 Hd4+

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 6. mars 2021.

- Auglýsing -