Stórmeistari Guðmundur Kjartansson við taflið. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Það var þungu fargi létt af Guðmundi Kjartanssyni er hann stóð upp frá borðinu á fimmtudagskvöldið eftir seinni kappskák sína gegn Hjörvari Steini Grétarssyni í 4-manna úrslitum Íslandsbikarsins. Með sigri jafnaði hann metin og hélt sér „inni“ í keppni sem snýst um að velja fulltrúa Íslands í heimsbikarmót FIDE í haust, en meira var um vert að þarna komst hann yfir 2.500 elo-stiga markið og þar með var síðustu hindruninni rutt úr vegi. Guðmundur er nýjasti stórmeistari Íslendinga og er vel að því kominn því að enginn íslenskur skákmaður hefur verið jafn duglegur að tefla undanfarin ár. Hann hefur áður komist nálægt þessu marki og var t.d. búinn að ná stigatölunni 2.499,4 elo-stig og þurfti þá jafntefli í skák við Peter Svidler, einn fremsta stórmeistara heims. Það gekk ekki og stundum fjarlægðist hann markið en hélt þó sínu striki, varð Íslandsmeistari í þriðja sinn í sumar, lét Covid-faraldurinn ekki stöðva sig og hefur teflt grimmt hér innanlands undanfarið.

Í átta manna útsláttarkeppni Íslandsbikarsins vann Guðmundur Kjartansson báðar skákir sínar gegn Margeiri Péturssyni. Það gerðu einnig Hjörvar Steinn Grétarsson og Hannes Hlífar Stefánsson sem unnu Vigni Vatnar Stefánsson og Braga Þorfinnsson. Helgi Áss Grétarsson vann svo Jóhann Hjartarson 2½:1½ eftir tvær skákir með styttri umhugsunartíma. Jóhann hafði komist yfir í byrjun, Helgi Áss jafnaði og vann svo þriðju skák þeirra sem tefld var með styttri umhugsunartíma.

Eitt umtalaðasta atvik keppninnar átti sér svo stað í fyrstu umferð 4-manna úrslitanna á miðvikudagskvöldið. Helgi Áss Grétarsson og Hannes Hlífar sátu að tafli og sá síðarnefndi hafði grandalaus leikið 16. … g5-g4. Þá kom þessi staða upp:

Íslandsbikarinn 2021:

(SJÁ STÖÐUMYND 1)

Helgi Áss – Hannes Hlífar

Hér lék Helgi Áss 17. Rd2 en gat knúið fram mát í tveimur leikjum með 17. Dxe6+ fxe6 18. Bg6 mát. Hannes vann síðan skákina í 37 leikjum. Það er engin ástæða til að draga of víðtækar ályktanir af þessu augnabliki skákarinnar en mér sýnist í fljótu bragði að hér sé komið furðu algengt fyrirbrigði gagnkvæmrar skákblindu. Hefði það flökrað að Hannesi hversu vitlaus 16. leikurinn hans var í raun og veru er aldrei að vita nema sú vitneskja hefði „flust yfir“ til andstæðingsins eftir yfirskilvitlegum leiðum.

Það var dálítill hávaði á samfélagsmiðlum út af þessu atviki og meðal þeirra sem „tístu“ um málið var enski stórmeistarinn Nigel Short.

Helgi Áss lét það ekki slá sig út af laginu, byggði upp vinningsstöðu í næstu skák, missti hana að vísu niður í tímahraki en náði vopnum sínum aftur og vann. Í gær áttu þessir fjórir því eftir að tefla a.m.k. tvær skákir með styttri umhugsunartíma.

Helgi Áss var ekki sá eini sem setti kíkinn fyrir blinda augað í viðureign við Hannes. Það gerði líka Bragi Þorfinnsson í seinni skákinni við Hannes í 1. umferð Íslandsbikarsins:

Íslandsbikarinn 2021:

Bragi Þorfinnsson – Hannes Hlífar

Hannes átti vinningsstöðu en uggði ekki að sér þegar hann lék a-peðinu fram í 28 leik. Hvítur verður að hafa hraðann á og 31. Rh5! blasir við – og vinnur strax. Eftir 31. … gxh5 kemur 32. Dg3+ Kh8 33. Hb8+. En Bragi valdi að leika 31. Df6 og tapaði eftir 37 leiki.

Slagkrafts er þörf.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 13. mars 2021.

- Auglýsing -